18. apríl 2009
Skólabörnum boðið á tónleika
Líkt og undanfarin ár býður Sinfóníuhljómsveit Íslands grunnskólanemendum á höfuðborgarsvæðinu á tónleika. Fernir tónleikar voru haldnir á fimmtudag og föstudag í Háskólabíói og komu hátt í 4000 börn í heimsókn til okkar. Sinfóníuhljómsveitin flutti balletinn Þyrnirós eftir Pjotr Tsjajkovskíj . Um tónsprotann hélt Bernharður Wilkinson en Halldór Gylfason leikari sagði söguna um Þyrnirós á sinn einstaka hátt. Nemendur úr Listdansskóla Íslands dönsuðu ballett á sviðinu með sinfóníuhljómsveitinni. Hátt í 50 nemendur á aldrinum 10-18 ára tóku þátt í sýningunni. Mikil stemmning var á tónleikunum og skólabörnin greinilega ánægð með tónleikana og var mikið klappað í lokin.