24. apríl 2009
Rússnesk goðsögn á Listahátíð 28.maí
Gennadíj Rosdestvenskíj hefur verið einn fremsti hljómsveitarstjóri Rússlands í næstum hálfa öld og hefur vakið eftirtekt um allan heim fyrir sérstæðan stjórnunarstíl sinn. Hann var náinn samstarfsmaður Prokofieffs og Sjostakovitsj og þeir tileinkuðu honum verk sín í virðingarskyni við ótvíræðar gáfur hans. Rosdestvenskíj heldur fáa tónleika á hverju ári og því er það stórviðburður í hvert sinn sem hann stígur á stjórnandapallinn. Það er sérstakt ánægjuefni að á tónleikum SÍ á Listahátíð í Reykjavík skuli hann stjórna Leníngrad-sinfóníu Sjostakovitsj sem var samin á þeim miklu hörmungartímum þegar Þjóðverjar sátu um borgina í 900 daga og um milljón manns lét lífið úr hungri og kulda. Auk þess mun eiginkona stjórnandans, Viktoria Postnikova, leika hinn ægifagra píanókonsert í c-moll eftir Mozart á tónleikunum. Kaupa miða | Efnisskrá