10. maí 2009
Maxímús músíkús í útrás
Fulltrúar fjögurra stærstu hljómsveita Evrópu komu til landsins til að fylgjast með fjölskyldutónleikum músarinnar með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Háskólabíói á lagardaginn. Hópurinn var hingað kominn til að kynna sér verkefnið og flutning þess á tónleikum. Vladimir Ashkenazy er verndari verkefnisins en á síðustu misserum hefur Hallfríður Ólafsdóttir höfundur Maxímúsar Músíkúsar leitað leiða til að kynna tónlistardagskrána og bókina erlendis. Gestirnir sem komu voru þau Cathy Milliken, fræðslustjóri Berlínarfílharmóníunnar; Philip Flood, fræðslustjóri London Symphony Orchestra; Charlott Runevret, fulltrúi fræðslustjóra Konunglegu Fílharmóníunnar í Stokkhólmi og Marga Wobma-Helmich, fræðslustjóri Concertgebouw tónlistarhússins í Amsterdam. Tónleikunum var ótrúlega vel tekið af erlendu gestunum en ekki síður af krökkunum sem skemmtu sér konunglega og klöppuðu mikið og vel fyrir músinni og hjómsveitinni að tónleikum loknum.