23. maí 2009
Söngperlur með Emmu Bell 11. júní
Hvað er betra en að heyra yndislegar söngperlur fluttar af listamanni sem hefur hvarvetna hlotið lof fyrir næma og fágaða túlkun sína? Á síðustu áskriftartónleikum starfsársins syngur ein frægasta unga sópransöngkona okkar tíma í Háskólabíói. Fyrri hluti tónleikanna samanstendur af tveimur klassískum meistaraverkum, hinu glæsilega Exsultate, jubilate eftir Mozart sem er eins konar konsert fyrir sópransöngkonu, og sinfónía nr. 2 eftir Ludwig van Beethoven. Eftir hlé er leikið á strengi tilfinninganna í verkum eftir Samuel Barber og glaðværum aríum úr óperum og óperettum eftir Johann Strauss, Franz Lehár og Giacomo Puccini. Emma Bell er ein glæsilegasta sópransöngkona sem komið hefur fram í Bretlandi í áraraðir. Hún hreppti Kathleen Ferrier-verðlaunin árið 1998 og eftir að hafa unnið hin virtu Borletti-Buitoni verðlaun nokkrum árum síðar stóðu henni allar dyr opnar. Hún þykir sérlega hæfileikaríkur Mozarttúlkandi og mun syngja hlutverk greifynjunnar í Brúðkaupi Fígarós við Metropolitan-óperuna haustið 2009. Það er því sérlega ánægjulegt að á þessum tónleikum skuli hún einmitt syngja eitt glæsilegasta sópranverk Mozarts í bland við annað góðgæti af ýmsum toga. Kaupa miða | Efnisskrá