EN

19. febrúar 2010

Nýr diskur með verkum d´Indy

CHAN10585Sinfóníuhljómsveit Íslands fagnar nýútkomnum geisladiski með hljómsveitarverkum eftir Vincent d´Indy, að þessu sinni með Sigurði Flosasyni í einleikshlutverki. Þetta er þriðji diskurinn sem Chandos gefur út með verkum þessa franska tónskálds í flutningi hljómsveitarinnar undir stjórn Rumon Gamba.

Fyrri geisladiskar SÍ í þessari röð hafa fengið einróma lof hjá erlendum fagtímaritum. Fyrsti diskurinn var tilnefndur til Grammy-verðlauna fyrir besta hljómsveitarflutning og flutningur SÍ á sinfóníu nr. 2 eftir d'Indy var valinn einn af diskum mánaðarins í Gramophone á síðasta ári.

Um þann disk sagði Andrew Achenbach í Gramophone: „Eins og áður leikur SÍ með bæði lofsverðri fágun og smitandi áhuga, og tónninn í upptökunni hefur bæði áþreifanlega nánd og heillandi birtu. Þetta er afskaplega góður geisladiskur, áfram með þann næsta í röðinni!“

Til stendur að taka upp fjórða diskinn í röðinni með verkum d´Indy í lok september.