SÍ tilnefnd sem Tónlistarflytjandi ársins
Tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2010 liggja nú fyrir en þau verða afhent í Íslensku óperunni 13. mars.
Sinfóníuhljómsveitin er tilnefnd í flokknum Tónlistarflytjandi ársins fyrir eftirminnilega tónleika með Gennadíj Rosdestvenskíj á Listahátíð sem og tónleika með Daníel Bjarnasyni og Víkingi Heiðari Ólafssyni á Myrkum músíkdögum. Þá fær Daníel tilnefningu fyrir píanókonsertinn Processions í flokknum Tónverk ársins, en konsertinn var einmitt frumfluttur á tónleikum SÍ á Myrkum músíkdögum. Daníel er einnig tilnefndur sem Höfundur ársins fyrir sama verk.
Edda Erlendsdóttir og Sinfóníuhljómsveit Íslands fá tilnefningu fyrir Plötu ársins í flokknum sígild / samtíðartónlist fyrir píanókonserta Haydn sem gefin er út af forlaginu Erma.
Gaman er að geta þess að Sæunn Þorsteinsdóttir sellóleikari er tilnefnd sem Bjartasta vonin en hún var einmitt einleikari á tónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar í þessari viku og Þóra Einarsdóttir er tilnefnd sem Rödd ársins en hún söng svo eftirminnilega á síðustu Vínartónleikum SÍ.
Víkingur Heiðar er tilnefndur Tónlistarflytjandi ársins en hann er einleikari á tvennum tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í næstu viku þar sem hann mun leika píanókonsert nr. 1 eftir Fréderic Chopin. Nær uppselt er á báða tónleikana – aðeins örfá sæti laus.
- Eldri frétt
- Næsta frétt