EN

22. mars 2010

Ungsveit SÍ -námskeið

Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands efnir til hljómsveitarnámskeiðs dagana 22. september - 2. október 2010.  Hljómsveitin hélt sína fyrstu tónleika í fyrrahaust við gríðarlega góðar viðtökur og vakti mikla athygli fyrir vandaðan flutning sinn á fimmtu sinfóníu Sjostakovitsj. Námskeiðið er nemendum að kostnaðarlausu.

Verkefni Ungsveitarinnar að þessu sinni verða Nótt á nornagnípu eftir Músorgskíj og Sinfónía nr. 4 eftir Tsjajkovskíj. Rumon Gamba stjórnar námskeiðinu og tónleikunum.

Prufuspil verða haldin fyrir öll hljóðfæri og munu þau fara fram dagana 10.-14. maí nk.

Nemendur þurfa að sækja um í hljómsveitina, líka þeir sem spiluðu með síðast.  Hægt er að nálgast umsóknareyðublað hér að neðan og er umsóknarfrestur til 1. maí.  Umsækjendur fá síðan staðfestingu á að umsókn hafi verið móttekin og uppgefinn prufuspilstíma.

Í prufuspilinu þarf hver nemandi að leika undirbúið verk að eigin vali (um 5 mínútur að lengd) og valda staði úr sinfóníu Tsjajkovskíjs.  Sérstök prufuspil verða haldin um stöðu konsertmeistara og þarf hver nemandi að leika fyrsta þátt úr fiðlukonserti að eigin vali.

Hægt verður að nálgast prufuspilsparta á skrifstofu SÍ í Háskólabíói frá og með mánudeginum 22. mars.

Vinsamlegast athugið að Ungsveitin er aðallega hugsuð sem vettvangur fyrir samspil nemenda í mið- og framhaldsstigi.  Nemendur í grunnstigi geta einnig sótt um í hljómsveitina, en þeim verður boðið að þreyta prufuspil eftir því hver ásóknin er í stöður í viðkomandi hljóðfæradeild.

Auk þess verður prufuspilað, í sömu vikunni í maí, fyrir einleikara á jólatónleikum SÍ. Fyrir það prufuspil þarf viðkomandi að vera á grunnskólaaldri (fædd 1994 eða síðar), og leika konsertþátt eða annað verk fyrir einleik eða hljómsveit, ekki lengra en 7 mínútur. Barokktónlist hentar vel á jólatónleikunum en þó ekki er gerð sérstök krafa um það.

 

Sækja umsóknareyðublað