EN

21. apríl 2010

Á sjötta þúsund gestir sáu Maxímús Músíkús!

maxi3_listiÍ glænýrri sögu um Maxímús Músíkús trítlar hann í tónlistarskólann og kynnist börnum sem leika á alls kyns hljóðfæri. Í hverju horni tónlistarskólans er verið að æfa og börnin eru öll afar spennt og kát því að þau eiga að fá að koma fram með stóru Sinfóníuhljómsveitinni.

Á tónleikunum með þessu nýja ævintýri músarinnar stigu á stokk ungir og efnilegir einleikarar og hópar tónlistarnema sem léku með hljómsveitinni, en inn á milli hljómuðu dillandi dansar þar sem Sinfóníuhljómsveitin var í aðalhlutverki.

Sögumaður var Valur Freyr Einarsson leikari og Daníel Bjarnason hélt um tónsprotann.


Það eru tveir hljóðfæraleikarar Sinfóníuhljómsveitarinnar, þau Hallfríður Ólafsdóttir, flautuleikari og Þórarinn Már Baldursson, víóluleikari sem hafa skapað Maxa mús og ævintýri hans.

Fyrsta bókin og geisladiskurinn um Maxímús Músíkús nutu gríðarlegra vinsælda. Auk þess að hljóta fjölda verðlauna hefur bókin nú verið gefin út á mörgum tungumálum. Þess má einnig geta að stórar erlendar sinfóníuhjómsveitir hafa sett Maxímús Músíkús á dagskrá hjá sér.

Við erum viss um að nýja sagan um Maxímús Músíkús og tónlistarskólann á ekki síður eftir að slá í gegn hjá ungum tónlistarunnendum. Mál og menning gefur bókina út.

Sinfóníuhljómsveit Íslands  hélt ferna leikskólatónleika 16. og 17. apríl fyrir tæplega 4000 börn. Laugardaginn 17. apríl var svo uppselt á tvenna fjölskyldutónleika kl. 14 og 17.