EN

21. apríl 2010

SÍ fær 5 stjörnur hjá tónlistartímariti BBC

CHAN10585Kominn er á markað þriðji hljómdiskurinn í útgáfuröð breska plötuforlagsins Chandos þar sem Sinfóníuhljómsveit Íslands flytur tónverk eftir Vincent d'Indy. Á diskinum er að finna þriðju sinfóníu tónskáldsins auk smærri verka, meðal annars Choral Varié fyrir saxófón og hljómsveit, þar sem Sigurður Flosason fer með einleikshlutverkið. Stjórnandi á diskinum er Rumon Gamba, aðalstjórnandi SÍ.

Þegar hefur birst gagnrýni um diskinn í fjórum tónlistarblöðum og tímaritum, og er hún öll hin lofsamlegasta. Í nýjasta hefti BBC Music Magazine fær flutningur SÍ fimm stjörnur og sama gildir um hljóðritunina sem Georg Magnússon hafði veg og vanda af. Í umsögninni segir Roger Nichols að Rumon Gamba nái að laða fram sérlega skilningsríka spilamennsku úr hljómsveitinni og hrósar sérstaklega smærri verkunum sem hann segir að sýni best lagræna gáfu tónskáldsins.

 
Í ítarlegum dómi í International Record Review segir Richard Whitehouse að sinfónía d'Indys sé „merk uppgötvun“ og útgáfa hennar á diski löngu tímabær. Hann segir að Gamba hitti ávallt naglann á höfuðið í túlkun sinni, og að flutningur Sinfóníuhljómsveitar Íslands sé slíkt afbragð að erfitt verði fyrir aðrar hljómsveitir að gera jafn vel.

Diskurinn fær fjórar stjörnur hjá Classic FM tímaritinu, þar sem segir að flutningur SÍ sé „skýr, rökréttur og vel mótaður“. Í The Observer segir Fiona Maddocks að „dásamlega tjáningarrík“ tónlistin njóti þess að vera frábærlega flutt af íslensku hljómsveitinni, svo að heildarútkoman sé „sérkennilega ávanabindandi“.


Fyrsti diskur SÍ í röðinni með hljómsveitarverkum d'Indys var tilnefndur til Grammy-verðlauna í desember 2008, og sá næsti var valinn einn af diskum mánaðarins í hinu virta tímariti Gramophone. Áformað er að Sinfóníuhljómsveit Íslands hljóðriti fjórða diskinn í röðinni í september næstkomandi.