EN

12. maí 2010

Prufuspil í Ungsveitina

ungsveit_storÞessa dagana standa yfir prufuspil í Ungsveit Sinfóníuhjómsveitar Íslands. Alls koma 115 tónlistarnemendur í prufuspil, flestir á aldrinum 12-22 ára. Alls verða 80 þeirra valin til þátttöku í sveitinni. Í prufuspilinu þarf hver nemandi að leika undirbúið verk að eigin vali (um 5 mínútur að lengd) og valda staði úr 4. sinfóníu Tsjajkovskíjs.  Sérstök prufuspil verða haldin um stöðu konsertmeistara og í þeim þarf hver nemandi að leika fyrsta þátt úr fiðlukonserti að eigin vali. Dómnefndir eru skipaðar leiðandi hljóðfæraleikurum úr Sinfóníuhljómsveit Íslands,og í prufuspilunum leika nemendur á bak við skerm til þess að tryggja algjört hlutleysi þegar kemur að úrskurði dómnefndanna.

Ungsveitin er hugsuð sem vettvangur fyrir samspil tónlistarnemenda í mið- og framhaldsstigi. Henni er ætlað að gefa nemendum tækifæri á að kynnast starfsumhverfi atvinnuhljóðfæraleikara, auk þess sem nemendur fá að starfa með hljómsveitarstjórum á heimsmælikvarða. Hljómsveitarnámskeið verður haldið dagana 22. september - 2. október nemendum að kostnaðarlausu. Námskeiðinu lýkur síðan á tónleikum hljómsveitarinnar í Háskólabíói.

Verkefni Ungsveitarinnar að þessu sinni verða Nótt á nornagnípu eftir Músorgskíj og Sinfónía nr. 4 eftir Tsjajkovskíj. Rumon Gamba, aðalhljómsveitarstjóri SÍ, stjórnar námskeiðinu og tónleikunum.

Ungsveitin hélt sína fyrstu tónleika í fyrrahaust við gríðarlega góðar viðtökur og vakti mikla athygli fyrir vandaðan flutning sinn á fimmtu sinfóníu Sjostakovitsj.