EN

23. september 2010

Ungsveit Sinfóníunnar að störfum

ungsveit_storSinfóníuhljómsveit Íslands efnir í annað sinn til hljómsveitarnámskeiðs fyrir lengra komna tónlistarnema. Markmiðið er að gefa  tónlistarnemendum tækifæri til að kynnast hinum sinfóníska heimi undir leiðsögn þeirra fremstu í greininni. Verkefni Ungsveitarinnar að þessu sinni verða Nótt á Nornagnípu eftir Músorgskíj og Sinfónía nr. 4 eftir Tsjajkovskíj. Rumon Gamba, fyrrum aðalhljómsveitarstjóri SÍ, stjórnar Ungsveitinni, auk þess sem hljóðfæraleikarar úr Sinfóníuhljómsveitinni leiðbeina nemendum á námskeiðinu.  Námskeiðið, sem nú stendur yfir, hófst 18. september og lýkur laugardaginn 2. október kl. 17:00 með tónleikum í Háskólabíói.

Námskeiðið er þátttakendum að kostnaðarlausu en í maí síðastliðnum voru haldin prufuspil þar sem yfir 130 hljóðfæranemar
kepptu um sæti í Ungsveitinni. Aðstæður og umgjörð prufuspilanna voru með sama hætti og þegar hljóðfæraleikarar prufuspila fyrir stöður í Sinfóníuhljómsveit Íslands.  Æfingar Ungsveitarinnar fara að mestu fram í Háskólabíói og eru skipulagðar með sama hætti og æfingar Sinfóníuhljómsveitarinnar.
 
Arna Kristín Einarsdóttir tónleikastjóri SÍ segir það vera afar dýrmætt fyrir Sinfóníuhljómsveitina að fá tækifæri til að kynnast því unga fólki sem leikur í Ungsveitinni og koma þannig með beinum hætti að tónlistarmenntun í landinu. Þetta frábæra samstarf við ungt tónlistafólk er mikilvægur hluti af fræðslustarfi Sinfóníuhljómsveitarinnar.   Fyrstu tónleikar Ungsveitar  SÍ voru haldnir síðasta vetur undir styrkri stjórn Rumons Gamba og  hlutu þeir frábærar undirtektir áheyrenda og vöktu mikla athygli.

Áhugamenn um framtíð íslenskrar tónlistar munu því ekki láta tónleika Ungsveitarinnar 2. október fram hjá sér fara.   Miðasala er hafin á á www. sinfonia.is og í síma 545-2500. Við minnum á að námsmenn fá 50% afslátt af miðaverði í miðasölu okkar í Háskólabíói.