EN

  • tofra_listi

20. október 2010

Skólabörnum boðið á Töfraflautuna

Sinfónhljómsveit Íslands býður skólabörnum á tónleika þar sem flutt verður Ævintýrið um töfraflautuna. Það er álit margra að Töfraflautan sé einhver fullkomnasta ópera sem samin hefur verið. Þar kemur bæði til stórfengleg tónlist Mozarts og skemmtilegt ævintýri þar sem kennir margra grasa.
Sinfóníuhljómsveitin tekur á móti grunnskólabörnum á fimmtudag og föstudag og flytur stytta útgáfu af Töfraflautunni. Öll vinsælustu lögin fá að fljóta með, ekki síst hin ógleymanlega aría Næturdrottningarinnar.
Halldóra Geirharðsdóttir leikkona segir söguna af alkunnri snilld og ungir og efnilegir söngvarar bregða sér í helstu hlutverkin og eru allir söngvarnir  fluttir á íslensku. Söngvarar eru  Herdís Anna Jónasdóttir, Sveinn Dúa Hjörleifsson, Jón Svavar Jósefsson, Tinna Árnadóttir og Hrund Ósk Árnadóttir. Öll stunda þau framhaldsnám við virta tónlistarskóla erlendis eða eru nýsnúin heim frá námi. Hljómsveitarstjóri er Bernharður Wilkinson. Alls verður Ævintýrið um töfraflautuna flutt sex sinnum í vikunni því að fyrir utan ferna skólatónleika verða tvennir fjölskyldutóneikar laugardaginn 23. október  kl. 14 og 17.