EN

  • gudny_listi

28. október 2010

Konsertmeistari kveður hjómsveitina

Tónleikarnir í kvöld eru þeir síðustu sem Guðný Guðmundsdóttir leikur sem konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Ekki þarf að fara mörgum orðum um ómetanlegt framlag Guðnýjar til Sinfóníuhljómsveitarinnar og íslensks tónlistarlífs.

Í 36 ár hefur hún leitt hljómsveitina úr sæti konsertmeistara, jafnframt því sem hún hefur skapað hljómsveitinni bjarta framtíð sem framúrskarandi kennari. Þá hefur Guðný reglulega komið fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveitinni og frumflutt fjölmarga fiðlukonserta hér á landi, íslenska og erlenda.

Í tilefni þessara tímamóta kemur út hljómdiskur með leik hennar í fjórum einleikskonsertum með hljómsveitinni.

Nú þegar Guðný lætur af störfum konsertmeistara mun hún helga sig fiðluleik og kennslu. Þannig mun Sinfóníuhljómsveitin vafalaust njóta góðs af starfi hennar áfram.

Starfsfólk Sinfóníuhljómsveitar Íslands þakkar Guðnýju Guðmundsdóttur áratuga farsælt samstarf og óskar henni allra heilla í framtíðinni.