EN

  • chaplin_kid_listi

11. nóvember 2010

Chaplin - Maðurinn á bak við snilldarverkin

CHARLES CHAPLIN (1889-1977)

Charles Spencer Chaplin er einn af helstu frumkvöðlum kvikmyndanna og skipar hann sér á bekk með Edwin S. Porter og David Wark Griffith, en kvikmyndir hans eru fyrir löngu orðin viðurkennd listaverk og margar þeirra eru frægustu perlur kvikmyndasögunnar, hvort sem um er að ræða þöglar myndir eða talmyndir. 

 

Myndir Chaplins eiga flestar það sammerkt að vera einfaldar sögur, sagðar á látlausan hátt að hætti klassískra kvikmynda, en hvert einasta smáatriði var afrakstur þrotlausrar fínvinnu sem tók Chaplin mörg ár. Snilli hans liggur ekki aðeins í þeim fjölda gamanmynda sem hann gerði í fjóra áratugi, heldur líka í sköpun hans á litla Flækingnum, sem er táknræn fyrir andstæður tuttugustu aldar, átakanna á milli hins efnislega og huglæga, einstaklingsins og samfélagsins, náttúrunnar og borgarlífsins. Þessar andstæður má allar finna í myndum hans, enda temað Chaplin hugleikið.

 

Þegar litið er til bernsku Chaplins þykir með ólíkindum að hann hafi orðið jafn margbrotinn listamaður og raun bar vitni. Hann fæddist í einu af fátækrahverfum Lundúna og eyddi bernskuárum sínum í athvörfum, vinnubúðum eða á götum úti. Foreldrar hans voru uppgjafa skemmtikraftar í söngleikjahúsum og kom Chaplin fram aðeins fimm ára gamall þegar hann hljóp í skarðið fyrir móður sína. Eftir langa vist í vinnubúðum komst Chaplin að hjá söngleikjahópi, en um aldamótin 1900 var breska söngleikjahefðin í algleymingi. Chaplin gafst því tækifæri til að horfa á helstu skemmtikrafta þeirra tíma og lék hann oftast drykkjuróna, sem hann þróaði síðar í litla Flækinginn.

 

Leikhópurinn fór til Bandaríkjanna og komst Chaplin að hjá Marc Sennett, sem var lærisveinn D.W. Griffiths og framleiddi gamanmyndir sem báru glögg merki teiknimyndasería auk áhrifa frá söngleikjum. Chaplin var orðinn vel þekktur aðeins tuttugu og fjögurra ára gamall. “Eftir því sem ég öðlaðist meiri reynslu, fann ég að staðsetning kvikmyndavélarinnar hafði ekki einungis sálfræðilegt gildi, heldur var líka grunnur að allri sviðsetningu og myndrænum stíl,” er haft eftir Chaplin. Tækni hans byggðist á því að hann lagði meiri áherslu á staðsetningu myndavélarinnar heldur en klippingu og hafði fullkomna stjórn á persónum, hlutum og hreyfingum þeirra í rými sem hann skapaði út frá sálfræðilegum næmleik.

 

Chaplin kvæntist fyrstu eiginkonu sinni, leikkonunni Mildred Harris árið 1918. Frumburður þeirra var drengur, sem lést þremur dögum eftir fæðinguna. Þetta áfall hafði þau áhrif á Chaplin að hann treysti sér ekki til vinnu í hálft ár, eða þangað til hann hóf gerð myndarinnar “The Kid.” Sótti hann þar í smiðju eigin hugarrauna og sannaði að hann gat gert gamanmynd úr hvaða harmleik sem var, en samskipti Flækingsins og drengsins eru í senn fyndin og grátbrosleg. Árið 1919 stofnaði Chaplin United Artist Corporation ásamt Mary Pickford, D.W. Griffith og Douglas Fairbanks í þeim tilgangi að fjármagna eigin myndir og leikstýra þeim án þrýstings frá framleiðendum.

 

Kvikmyndin Borgarljósin frá 1931 telst til einna best heppnuðustu gamanmynda Chaplins og er klassísk perla kvikmyndasögunnar. Flækingurinn verður ástfanginn af blindri blómasölustúlku og ákveður að veita henni sjónina aftur. Þar með ratar hann í ótrúleg og grátbrosleg ævintýri. Þótt talmyndir væru komnar til sögunnar seint á fjórða áratugnum ákvað Chaplin að hafa myndina þögla með titlum á milli myndskeiða þar sem honum fannst gæði talmyndanna ófullnægjandi enn sem komið var. Hann samdi tónlistina sjálfur, en í henni gætir margs konar áhrifa úr fjölleikahúsum, söngleikjum, tangó, spænskri og ískri þjóðlagatónlist og verkum Vivaldis og Rimsky-Korsakoff. Chaplin kunni ekki að skrifa tónlist svo hann vann ætíð með tónsmiðum og flautaði eða söng þá tónlist sem hann vildi koma niður á blað. Síðar á ævinni lagði hann fyrir sig tónsmíðar.

 

Seint á þriðja áratugnum lagðist Chaplin í ferðalög. Leið hans lá um Evrópu og hitti hann Indlandsleitogann Ghandi, sem hafði mikil áhrif á hann. Chaplin varð einnig fyrir miklum áhrifum af dökkri heimsmynd millistríðsáranna og uppgangi nasismans eins og kemur fram í Nútímanum (1936) og Einræðisherranum, (1939) sem var fyrsta talmynd hans.

 

Chaplin dvaldi lengst af í Bandaríkjunum þar til hann varð fyrir ofsóknum “and-kommúnísku nefndarinnar” á tímum kalda stríðsins og neyddist hann til að flýja til Evrópu ásamt fjórðu og síðustu eiginkonu sinni, Oonu O´Neill, dóttur leikskáldsins Eugene O´Neill, sem varð líka fyrir barðinu á nefndinni. Fjölskyldan settist að í Corsier-sur-Vevey í Sviss, þar sem nú er veglegt Chaplin safn.

 

Chaplin fékk fjölda verðlauna fyrir lífsstarf sitt og var sleginn til riddara árið 1975. Hann lést 89 ára að aldri á heimili sínu í Sviss, en svo óvenjulega vildi til að líki hans var stolið ári síðar. Þjófarnir voru handsamaðir í tæka tíð og líkinu skilað aftur í kirkjugarðinn. Chaplin hefði eflaust haft gaman af þessari uppákomu þar sem hún var í anda gamanmynda hans.

 

Myndir Chaplin hafa haft svo víðtæk áhrif á kvikmyndasöguna að ekki er hægt að rekja það hér. Atriðið í Gullæðinu frá 1925 þar sem Flækingurinn býr til dansskó úr brauðrúllum hefur margoft verið sett á svið, meðal annars í kvikmyndinni Chaplin, sem Richard Attenborough gerði um líf hans 1992 og lék Robert Downey Jr. Chaplin. Johnny Depp setti atriðið á svið í myndinni Benny og Joon frá árinu 1993.  Í mynd Roman Polanski, Repulsion (1956) er atriðinu lýst.  Þá bregður Gloria Swanson sér í hlutverk Chaplin í rökkurmyndinni Sunset Boulevard frá 1950.

 

Fáeinar lykilmyndir Chaplins:

 

The Tramp, 1915

Easy Street, 1917

The Immigrant, 1917

The Kid, 1921

A Woman of Paris, 1923

The Gold Rush, 1925

The Circus, 1928

City Lights, 1931

Modern Times, 1936

The Great Dictator, 1939

Limelight, 1952

 

Höfundur: Oddný Sen, kvikmyndafræðingur.