EN

  • Gudny_Gudmundsdottir_CD

24. nóvember 2010

Guðný Guðmundsdóttir – nýr hljómdiskur

Kominn er út tvöfaldur hljómdiskur með einleik Guðnýjar Guðmundóttur fiðluleikara með Sinfóníuhljómsveit Íslands í fjórum einleikskonsertum.  Auk fiðlukonserta eftir Edward Elgar og Benjamin Britten leikur Guðný tvo konserta eftir íslensk tónskáld með austurrískar rætur, Herbert H. Ágústsson og Pál P. Pálsson. Upptökurnar eru frá árunum 1992 – 2001, en öll voru verkin frumflutt á Íslandi af Guðnýju og er hún sú eina sem hefur leikið opinberleg íslensku einleiksverkin.

Guðný Guðmundsdóttir hefur um árabil verið einn fremsti fiðluleikari Íslendinga og hefur hún hlotið fjölda viðurkenninga og verðlauna hér heima og erlendis. Hún hefur sett svip sinn á íslenskt tónlistarlíf sem einleikari, kennari, kammerleikari og sem konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Íslands, en hún lét nýlega af starfi konsertmeistara eftir að hafa gengt því frá árinu 1974.

Diskurinn er gefinn út af Sinfóníuhljómsveit Íslands & Smekkleysu SM ehf. með styrk frá Hljómdiskasjóði F.Í.T. Smekkleysa annast dreifingu. Hljóðritun í Háskólabíói annaðist Hljóðdeild Ríkisútvarpsins.


Guðný sótti um stöðu 1. konsertmeistara Sinfóníunnar að loknu meistaranámi við Juilliard- tónlistarskólann í New York, en henni stóð á sama tíma einnig til boða staða í strengjakvartett og sem kennari við bandarískan háskóla. Hún var aðeins tuttugu og sex ára gömul, enda þóttu nokkur tíðindi þegar tilkynnt var í júní 1974 að „ung stúlka úr Kópavogi“, eins og það var orðað í dagblöðum, hefði unnið prufuspil um stöðu konsertmeistara. Guðný ákvað að taka atvinnutilboðinu frá Íslandi og á því leikur enginn vafi að hún hefur lyft grettistaki í tónlistarlífinu, bæði sem hljóðfæraleikari og kennari.

Guðný kennir við Tónlistarskólann í Reykjavík og hefur nú umsjón með fiðludeild Listaháskóla Íslands. Guðný hefur hlotið viðurkenningar sem tónlistarmaður, m.a. Riddarakross hinnar íslensku Fálkaorðu árið 1989.  Hún hefur komið víða við á löngum ferli, spilað undir stjórn heimsþekktra hljómsveitarstjóra og spilað með frægustu einsöngvurum og einleikurum heims, t.d. Vladimir Ashkenazy, Anne-Sophie Mutter, Itzhak Perlmann. Guðný er einnig meðlinur í Tríói Reykjavíkur ásamt Peter Máté píanóleikara og Gunnari Kvaran sellóleikara. Hún hefur leikið inn á nokkrar geislaplötur bæði einleik og kammertónlist. Geisladiskur með einleiksverkum eftir Þórarin Jónsson, J.S. Bach, Hallgrím Helgason og Hafliða Hallgrímsson kom á markað haustið 2002 og var tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna sama ár.



Allir fjórir fiðlukonsertarnir á  þessum nýja diski voru frumfluttir hér á landi af Guðnýju.  Tveir af þeim eru eftir íslensk tónskáld og er Guðný sú eina sem hefur flutt þá opinberlega.  Elgar konsertinn var skrifaður á árunum 1907-09 og var frumfluttur af Fritz Kreisler í Queen's Hall í London árið 1910. Elgar tjáði sig sjálfur um konsertinn: „Hann er góður! Ógurlega mikið af tilfinningum, of mikið, en ég er hæstánægður með hann engu að síður.”

Herbert H. Ágústsson var fæddur í Graz í Austurríki árið 1926.  Formgerð II var samið á árunum 1978-79 og er eina verk hans fyrir einleiksfiðlu.  Það var frumflutt á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands árið 1981.  Nafn verksins er góð lýsing á verkinu, en Herbert sagði sjálfur um verkið: „Formgerð táknar; smíði, mót, gerð eða byggingu. [...]  Formgerð II, Quasi adagio e rubato.  Úr litlu frumi myndast smám saman í byrjun verksins mjög frjálst impróvíserandi stef.  Sex tilbrigði, kadensa og kódi fylgja, en verkið endar eins og það upphófst.”

Benjamin Britten  skrifaði fiðlukonsertinn sinn aðeins 25 ára að aldri og var það fyrsta verkið sem hann lauk við í Bandaríkjunum, þangað sem hann flúði þangað árið 1939 í upphafi síðari heimstyrjaldarinnar.  Í bréfi Brittens til útgefanda síns Ralph Hawks segir Britten:  „Þetta er án efa besta verk mitt hingað til.  Það er fremur alvarlegt, er ég hræddur um –en það hefur samt nokkrar góðar laglínur!”

Páll Pálsson hóf feril sinn eins og Herbert í Graz í Austurríki en var ráðinn til Íslands 1949.  Hann starfaði lengi með Sinfóníuhljómsveit Íslands sem hljóðfæraleikari, hljómsveitarstjóri og tónskáld.  Fiðlukonsertinn var saminn 1997-98 og er tileinkaður Guðnýju. Hún frumflutti konsertinn í maí 1998.  Þriðji kaflinn var saminn í minningu Ruth Hermanns fiðluleikara en hún lest um það sama leyti og konsertinn var í skrifum.  

 

Kaupa diskinn MP3 eða CD