EN

30. nóvember 2010

Úrslit í einleikarakeppni SÍ og LHÍ

Á hverju ári heldur Sinfóníuhljómsveit Íslands í samstarfi við Listaháskóla Íslands einleikarakeppni sem er opin öllum íslenskum tónlistarnemum á háskólastigi.  Hlutskarpastir í þeirri keppni fá að leika einleik með Sinfóníuhljómsveitinni á tónleikum undir yfirskriftinni Ungir einleikarar.

Einleikarakeppnin í ár fór fram í Háskólabíói 31. október síðastliðinn. Sjö nemendur tóku þátt í keppninni, fjórir söngvarar og þrír hljóðfæraleikarar. Dómnefnd valdi þau Andra Björn Róbertsson, söngvara, Birgi Þórisson, píanóleikara og Jane Ade Sutarjo, píanóleikara til að koma fram á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á tónleikum 13.  janúar kl. 19.30. Hljómsveitarstjóri er Bernharður Wilkinson.

Á þessum tónleikum ríkir ávallt sérstök spenna, eftirvænting og stolt yfir þeim mikla mannauði sem íslensk þjóð býr yfir. Þetta eru tónleikar sem áhugamenn um framtíð  íslenskrar tónlistar láta sig ekki vanta á. Miðasala er þegar hafin.