Einleikaraveisla í febrúar
Í febrúarmánuði efnir Sinfóníuhljómsveitin til sannkallaðrar einleikaraveislu enda koma fjórir frábærir sólistar fram með hljómsveitinni á jafn mörgum tónleikum. Ari Þór Vilhjálmsson hefur vakið mikla athygli fyrir glæsilegan leik sinn undanfarin ár, og flytur nú með hljómsveitinni hinn magnaða fiðlukonsert nr. 1 eftir Dmitrí Sjostakovitsj. Þýsk-japanski sellóleikarinn Danjulo Ishizaka leikur sellókonsert eftir Hafliða Hallgrímsson, staðartónskáld Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Ishizaka vakti stormandi lukku þegar hann lék með SÍ vorið 2008 og í millitíðinni hefur hann leikið við góðan orðstír bæði í Carnegie Hall og á Verbier-hátíðinni í Sviss. Hann hefur flutt konsert Hafliða víða um heim á undanförnum árum og kemur nú til Íslands og leikur verkið á Stradivarius-sellóið sitt, „Lord Aylesford“, sem svo sannarlega er komið til ára sinna, smíðað árið 1696.
Rússneski píanistinn Kirill Gerstein hefur heldur betur slegið í gegn í klassíska tónlistarheiminum undanfarið, en hann hlaut einmitt hin eftirsóttu Gilmore-verðlaun, sem nema um 40 milljónum króna, árið 2010. Hann þykir sameina í leik sínum afburða tæknilega kunnáttu og ljóðræna tilfinningu sem ekki er á allra færi. Með Sinfóníuhljómsveitinni flytur hann píanókonsert nr. 2 eftir Johannes Brahms, en hann hefur ekki heyrst á tónleikum Sinfóníunnar í áratug.
Febrúarmánuði lýkur á því að þýski fiðluleikarinn Isabelle Faust flytur fiðlukonsert Beethovens undir stjórn Bertrands de Billy. Faust er einn eftirsóttasti fiðluleikari heims um þessar mundir og var tilnefnd til Gramophone-verðlaunanna 2010 sem tónlistarmaður ársins, ásamt m.a. Plácido Domingo, Lang Lang og Joyce DiDonato. Faust er staðarlistamaður SÍ starfsárið 2010-11 og heillaði áheyrendur upp úr skónum í september sl. með glæsilegum flutningi sínum á fiðlukonserti Stravinskíjs. Túlkun hennar á Beethoven-konsertinum er margrómuð og hljóðritun hennar á verkinu frá árinu 2006 sópaði að sér fjölda verðlauna.
- Eldri frétt
- Næsta frétt