17 tónverk bárust
Samkeppni um tónverk til flutnings á opnunarhátíð hörpu 13. maí
Frestur til að skila inn tónverkum í samkeppni um verk til flutnings á opnunarhátíð Hörpu 13. maí nk. rann út föstudaginn 7. janúar. Alls bárust 17 verk í keppnina, öll á bilinu 5-10 mínútur að lengd og samin fyrir sinfóníuhljómsveit.
Fimm manna dómnefnd hefur nú það hlutverk að velja sigurverkið, en höfundur þess hlýtur 1.000.000 kr. í verðlaun.
Í dómnefndinni sitja Daníel Bjarnason (fulltrúi Félags íslenskra hljómlistarmanna), Egill Ólafsson (fulltrúi Félags tónskálda og textahöfunda), Hildigunnur Halldórsdóttir (fulltrúi Listráðs Hörpu), Kjartan Ólafsson (fulltrúi Tónskáldafélags Íslands) og Árni Heimir Ingólfsson (fulltrúi Sinfóníuhljómsveitar Íslands), sem jafnframt er formaður dómnefndar. Öllum verkum var skilað inn undir dulnefni og verða nöfn tónskáldanna ekki gerð kunn fyrr en dómnefndin hefur komist að niðurstöðu.
Tilkynnt verður um úrslit keppninnar á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á Myrkum músíkdögum fimmtudaginn 27. janúar nk.
- Eldri frétt
- Næsta frétt