IlanVolkov ráðinn aðalstjórnandi
ILAN VOLKOV RÁÐINN NÝR AÐALSTJÓRNANDI SINFÓNÍUHLJÓMSVEITAR ÍSLANDS
Tekur við stöðu aðalhljómsveitarstjóra og listræns stjórnanda við upphaf fyrsta starfsárs SÍ í Hörpu í haust
Sinfóníuhljómsveit Íslands sendi í dag frá sér tilkynningu um ráðningu ísraelska hljómsveitarstjórans Ilan Volkov sem aðalhljómsveitarstjóra og listræns stjórnanda til þriggja starfsára. Volkov tekur við stöðunni í september 2011, við upphaf fyrsta starfsárs Sinfóníuhljómsveitar Íslands í nýja tónlistarhúsinu Hörpu.
Ilan Volkov er 34 ára gamall og á glæsilegan feril að baki á stjórnendapalli víða um heim. Einungis 19 ára gamall varð hann aðstoðarstjórnandi Northern Sinfonia á Englandi og tveimur árum síðar tók hann við stöðu aðalstjórnanda ungmennahljómsveitar Lundúnarfílharmóníunnar. Árið 1999 bauð Seiji Ozawa honum stöðu aðstoðarhljómsveitarstjóra við Sinfóníuhljómsveitina í Boston. Hann var valinn aðalstjórnandi BBC-hljómsveitarinnar í Skotlandi árið 2003 og var þá yngsti stjórnandinn í sögunni til að hreppa slíka stöðu við bresku útvarpshljómsveitirnar. Árið 2009 færði Volkov sig í stöðu aðalgestastjórnanda í Skotlandi en ferðast annars um heiminn sem hljómsveitarstjóri. Hann kemur reglulega fram á stórum tónlistarhátíðum, svo sem á Proms-hátíðinni í London. Volkov hefur fengið mikið lof og fjölda viðurkenninga á ferli sínum, m.a. hlaut hann Gramophone verðlaunin bæði 2008 og 2009 fyrir hljóðritanir sínar.
Volkov hefur átt samstarf við Sinfóníuhljómsveit Íslands allt frá árinu 2003. Meðal annars stjórnaði hann tvennum tónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar á síðasta ári sem hlutu einróma lof gagnrýnenda og tónleikagesta. Voru báðir þessir tónleikar á meðal 10 bestu tónleika liðins árs að mati tónlistargagnrýnenda Morgunblaðsins.
Volkov tekur við stöðu aðalhljómsveitarstjóra og listræns stjórnanda við upphaf næsta starfsárs og er hann samningsbundinn til loka starfsárs 2014. Hann mun stýra hljómsveitinni á sex til níu tónleikum á starfsári á samningstímanum. Volkov mun einnig stýra árlegri tónlistarhátíð með nýrri og framsækinni tónlist í Hörpu og fer fyrsta hátíðin af því tagi fram í mars 2012.
„Það er mér sérstakt ánægjuefni að taka við starfi aðalhljómsveitarstjóra og listræns stjórnanda Sinfóníuhljómsveitar Íslands á miklum tímamótum í sögu tónlistar á Íslandi,“ segir Ilan Volkov. „ Á Íslandi er sérlega spennandi og líflegt tónlistarlíf sem skapar einstaka listræna möguleika. Ég hef haft mikla ánægju af því að starfa með með hljómsveitinni og hlakka mjög til nánara samstarfs, þar sem við munum bjóða upp á frumlega og áhugaverða dagskrá. Ég er ekki síst spenntur fyrir því að fá að stýra árlegri hátíð með nýrri tónlist í samvinnu við nútímatónskáld, tónlistarmenn úr öðrum tónlistargeirum og aðra listamenn.“
„Ilan Volkov er einn áhugaverðasti og eftirsóttasti hljómsveitarstjóri samtímans af yngri kynslóð,“ segir Sigurður Nordal framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands. „Það er því mikið fagnaðarefni fyrir íslenska tónlistarunnendur að hann hafi þegið stöðu aðalhljómsveitarstjóra og listræns stjórnanda Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Skýr listræn sýn Ilan Volkovs, reynsla hans og einstök tónlistargáfa samræmast vel metnaðarfullum markmiðum hljómsveitarinnar. Spennandi tímar eru framundan í íslensku tónlistarlífi, þegar Ilan Volkov mun leiða Sinfóníuhljómsveit Íslands á fyrsta starfsárinu í nýju tónlistarhúsi í haust.”
Viðbótarupplýsingar
Um Ilan Volkov
Ilan Volkov fæddist í Ísrael árið 1976 og hóf tónlistarnám ungur að árum. Hann varð aðstoðarstjórnandi Northern Sinfonia á Englandi 19 ára gamall og tveimur árum síðar tók hann við stöðu aðalstjórnanda ungmennahljómsveitar Lundúnarfílharmóníunnar. Árið 1999 bauð Seiji Ozawa honum stöðu aðstoðarhljómsveitarstjóra við Sinfóníuhljómsveitina í Boston. Hann var valinn aðalstjórnandi skosku BBC-hljómsveitarinnar árið 2003 og var þá yngsti stjórnandinn til að hreppa slíka stöðu við bresku útvarpshljómsveitirnar. Hann stýrði hljómsveitinni meðal annars á Proms- og Edinborgarhátíðunum, og lagði sig fram um að kynna nýja tónlist meðan hann gegndi stöðunni, m.a. nýjan sellókonsert eftir Unsuk Chin með einleikaranum Alban Gerhardt á Proms-hátíðinni 2009. Volkov stýrði tvennum tónleikum á síðustu Proms-hátíð, m.a. tónleikum með verkum Cardew, Cage og Feldman.
Árið 2009 færði Volkov sig í stöðu aðalgestastjórnanda í Skotlandi. Hann er tíður gestur hljómsveita víða um heim, þar á meðal Fílharmóníuhljómsveitanna í Ísrael og München, Sinfóníuhljómsveitirnar í Bamberg, Birmingham, Melbourne, Tókýó, Lyon og Toulouse, Orchestre de Paris, Útvarpshljómsveitarinnar í Berlín og Þjóðarhljómsveitarinnar í Washington. Á undanförnum mánuðum hefur Volkov auk þess starfað með Fílharmóníuhljómsveitinni í Rotterdam, BBC-sinfóníuhljómsveitinni og Sinfóníuhljómsveit Gautaborgar.
Volkov er einnig mikils metinn óperustjóri, hefur stýrt Lundúnafílharmóníunni í Draumi á Jónsmessunótt eftir Britten á Glyndebourne-hátíðinni, Peter Grimes við Þjóðaróperuna í Washington og Evgéní Ónégin við San Francisco-óperuna.
Volkov hljóðritar reglulega fyrir Hyperion-útgáfuna og hlaut Gramophone-verðlaunin 2009 fyrir hljóðritun sína af hljómsveitarverkum Benjamins Britten. Hann hlaut jafnframt Gamophone verðlaunin 2008 fyrir hljóðritun á verkum Jonathan Harvey fyrir NMC útgáfuna. Á nýjustu diskum hans er að finna verk eftir Stravinskíj og Janácek, og hafa þeir hlotið afbragðs viðtökur gagnrýnenda. Volkov er búsettur í Ísrael og er þar einn drifkrafta tónlistarklúbbsins Levontin 7, þar sem flutt er jöfnum höndum klassísk tónlist, djass, rokk og elektróník.
Um samstarf Volkovs og SÍ
Ilan Volkov hefur átt samstarf við Sinfóníuhljómsveit Íslands allt frá árinu 2003, þegar hann stýrði sveitinni á tónleikum með 20. aldar tónlist í Háskólabíói. Hann sneri aftur tveimur árum síðar og þá voru verk eftir Haydn og Ligeti á efnisskránni. Um þá tónleika ritaði Jónas Sen, gagnrýnandi Morgunblaðsins, að hreinn unaður hefði verið að fylgjast með „hvernig verkið hreyfði sig á milli ólíkra hljóðfærahópa undir öruggri stjórn Volkovs. Tæknilega séð var flutningurinn frábær; hann var samstilltur og agaður en einnig kraftmikill. Útkoman var draumkennd stemning sem ekki verður lýst með orðum; hvílíkt ferðalag!“
Volkov sneri á ný til Íslands í janúar 2010, þegar leitin að nýjum aðalstjórnanda Sinfóníunnar stóð sem hæst. Á þeim tónleikum stjórnaði Volkov m.a. verkum eftir Ravel og Stravinskíj, og að þeim loknum var honum umsvifalaust boðið að taka að sér upphafstónleika yfirstandandi starfsárs. Þar stýrði hann m.a. flutningi á Paganini-rapsódíu Rakmaninoffs með Víkingi Heiðari Ólafssyni píanóleikara. Báðir þessir tónleikar hlutu feiknagóðar viðtökur og voru meðal tíu bestu klassísku tónleika ársins 2010 að mati gagnrýnenda Morgunblaðsins.
Árni Heimir Ingólfsson, tónlistarstjóri SÍ, segir að strax hafi verið ljóst að Volkov væri öllum þeim kostum búinn sem prýða þyrftu aðalstjórnanda. „Ilan náði strax mjög góðu sambandi við hljómsveitina, það var augljóst að þau vinna vel saman og að honum tekst að virkja að fullu þá gífurlegu hæfileika sem hljómsveitin hefur yfir að ráða. Hann er kraftmikill og ákveðinn stjórnandi, með skýra sýn á það sem hann vill ná fram í flutningnum og áhugaverðar hugmyndir um verkefnaval. Hann fylgist vel með nýrri sköpun í öllum geirum tónlistarinnar og vill gjarnan að hljómsveitin nýti sér þann fjölbreytileika sem einkennir tónlistarlífið á Íslandi. Sinfóníuhljómsveitir í erlendum stórborgum eiga það til að reiða sig á hefðbundnar og fyrirsjáanlegar formúlur, en hér getur Sinfóníuhljómsveitin orðið leiðandi afl og vakið athygli langt út fyrir landsteinana með því að blanda saman gömlum og nýjum hefðum á nýstárlegan hátt. Við væntum mikils af starfi hans hér á næstu árum.“
Um aðalhljómsveitarstjóra SÍ
Ilan Volkov er þrettándi aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá því að sveitin tók til starfa vorið 1950. Fyrsti aðalstjórnandi hljómsveitarinnar var Norðmaðurinn Olav Kielland, sem starfaði hér á landi frá 1951–1955. Á undanförnum árum hafa gegnt stöðunni þeir Petri Sakari, Osmo Vänskä, Rico Saccani og nú síðast Rumon Gamba, sem stýrði Sinfóníuhljómsveit Íslands um átta ára skeið. Meðal afreka hans á þeim tíma voru tíu hljómdiskar fyrir breska útgáfufyrirtækið Chandos og var einn þeirra, með hljómsveitarverkum franska tónskáldsins Vincents d'Indy, tilnefndur til Grammy-verðlaunanna sem besti flutningur hljómsveitar á geisladiski árið 2008.
Tveir aðrir heimsþekktir stjórnendur gegna heiðursstöðum við Sinfóníuhljómsveit Íslands. Vladimir Ashkenazy er heiðursstjórnandi hljómsveitarinnar og mun stýra flutningi hennar á 9. sinfóníu Beethovens við opnun Hörpu í maí nk. Gennadíj Rosdestvenskíj er aðalgestastjórnandi Sinfóníunnar og mun stjórna henni á fernum tónleikum árið 2011.
Nánari upplýsingar:
Vefsíða Ilans Volkov hjá umboðsskrifstofunni International Classical Artists: www.icartists.co.uk/artists/ilan-volkov
Nánari upplýsingar veitir:
Margrét Ragnarsdóttir
Markaðs- og kynningarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands
545 2500 / 820 1955
magga@sinfonia.is
- Eldri frétt
- Næsta frétt