EN

  • maxi_germany

22. febrúar 2011

Maxímús í Þýskalandi og Ástralíu

Það er skammt stórra högga á milli í útrás Sinfóníunnar og músíkölsku músarinnar Maxa. Nú fyrir skemmstu kom fyrsta bókin um Maxa, Maxímús Músíkús heimsækir hljómsveitina, út í Þýskalandi og Ástralíu. Með bókunum fylgir geisladiskur sem ekki einungis inniheldur söguna lesna með öllum þeim umhverfishljóðum og tónlist sem henni tilheyrir, heldur einnig flutning Sinfóníuhljómsveitar Íslands á verkum eftir Ravel, Copland og Sigvalda Kaldalóns að ógleymdu Laginu hans Maxa sem er, eins og sagan, eftir leiðandi flautuleikara hljómsveitarinnar, Hallfríði Ólafsdóttur.

Myndskreyting bókanna er einnig í höndum hljóðfæraleikara SÍ en það er Þórarinn Már Baldurson, víóluleikari, sem hefur gætt músina lífi með hlýlegum teikningum sínum. Það er ástæða til að fagna útkomu bókanna á svo stórum svæðum því að þýsku útgáfunni verður dreift á öllu þýska málsvæðinu og áströlsku bókinni í Eyjaálfu.

Þýski útgefandinn , Schott Music, er einn elsti og stærsti útgefandi tónlistarbóka og nótna í heiminum. Schott hefur nú þegar sent seinni bókina um Maxa, Maxímús Músíkús trítlar í tónlistarskólann, í prentun og mun hún koma út um miðjan mars.