Þriðju opnunartónleikum bætt við í Hörpu föstudaginn 6. maí
Í ljósi mikils áhuga á opnunartónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpu 4. og 5. maí hefur hljómsveitarstjórinn Vladimir Ashkenazy ákveðið að breyta fyrri áformum sínum svo unnt sé að bæta við þriðju tónleikunum föstudagskvöldið 6. maí.
„Það er mikið fagnaðarefni að hægt sé að bjóða upp á þessa aukatónleika og vert að þakka Vladimir Ashkenazy fyrir að breyta löngu ákveðnum áformum sínum svo að sem flestir tónlistarunnendur fái tækifæri til þess að njóta opnunartónleikanna í Hörpu,” segir Sigurður Nordal, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands.
Ashkenazy þarf strax í kjölfar tónleikanna að fljúga til Ástralíu, þar sem hann gegnir stöðu aðalhljómsveitarstjóra Sinfóníuhljómsveitarinnar í Sidney. Vakin er athygli á því að tónleikarnir 6. maí munu hefjast kl. 19:00 eða klukkutíma fyrr en tónleikarnir fyrri kvöldin.
Á efnisskrá tónleikanna er níunda sinfónía Beethovens og píanókonsert Edvards Griegs í flutningi Víkings Heiðars Ólafssonar. Auk þess verður flutt nýtt verk eftir Þorkel Sigurbjörnsson, Velkomin Harpa, sem er samið sérstaklega í tilefni flutnings hljómsveitarinnar í Hörpu.
Áætlað er að tónleikarnir fara í sölu þriðjudaginn 15. mars kl. 12.00 í miðasölu Hörpu Aðalstræti 2, í síma 528 5050, á harpa.is og sinfonia.is. Miði.is vinnur að því að efla miðasölukerfið áður en miðasala á fleiri tónleika í Hörpu hefst til þess að tryggja að kerfið anni álagi. Allir miðar á tónleikana fara í almenna sölu.
- Eldri frétt
- Næsta frétt