Leikskólabörn heimsækja Sinfóníuna
Sinfóníuhljómsveit Íslands heldur fimm leikskólatónleika í þessari viku og á því von á hátt í 4000 börnum í heimsókn í Háskólabíó.
Skólatónleikar eru fastur liður í starfsemi hljómsveitarinnar og árlega tökum við á móti um 8000 nemendum á ýmsum aldir.
Að þessu sinni flytur hljómsveitin hið sígilda ævintýri um Tobba Túbu, eftir George Kleinsinger. Tim Buzbee, túbuleikari Sinfóníunnar er að sjálfsögðu í aðalhlutverki en sögumaður er Trúðurinn Barbara. Stjórnandi er Guðni Franzson.
Ævintýri fyrir túbu og hljómsveit eftir Georg Kleinsinger
Það var einu sinni hljómsveit, sem var að keppast við að búa sig undir tónleika. Fyrst kom óbóið og sagði A-ið sitt, fyrst við strengjahljóðfærin, svo við tréblásturshljóðfærin, og síðan við málmblásturshljóðfærin.
Þau þutu upp og niður tónstigann, í einni bendu, hraðar og hraðar.... öll nema Tobbi túba. Lítil feit túba, sem puðaði eins og hún gat – en ó, svo hægt.
„Ó, mikið er þetta yndisleg músík", hugsaði Tobbi og stundi við.
„Svona, hvað gengur að þér?", sagði Fúsi flauta.
„Ó", sagði Tobbi. „Í hvert sinn sem við fáum nýtt tónverk til að spila, fáið þið öll svo falleg lög... en ég fæ aldrei, aldrei fallegt lag".
„En fólk skrifar ekki falleg lög fyrir túbur. Það er bara alls ekki gert! Oh... þarna kemur stjórnandinn... shh!"
Nú byrjuðu fiðlurnar að spila og léttu, fallegu tónarnir dönsuðu á strengjunum. Svo hrópuðu þeir til flautunnar: „Gríptu mig!" „Gripinn", kallaði flautan.
„Nú er komið að mér!", þrumaði trompetinn.
Og öll hin fylgdu á eftir: sellóin, óbóið, og fagottið. En Tobbi sagði bara: „úmpah, úmpah".
„Gríptu mig," kallaði lítil nóta, „gríptu mig!"
„Ég náði þér", hrópaði Tobbi.
„Æ, æ, æ! Þú situr á mér", sagði litla nótan.
Aumingja Tobbi tók litlu, klesstu nótuna og reyndi að laga hana til.
„Klaufabárðurinn þinn", söng í fiðlunum.
„Ó, afsakið, herra fíólín", sagði Tobbi.
„Herra fíólín, ekki nema það þó"! Það hvein í fiðlunum. Þær voru öskuvondar.
„Þú skalt gjöra svo vel að nefna okkur réttu nafni. Fíólín! Ekki nema það þó."
„Tobbi!", sagði stjórnandinn. „Tobbi, hvað í ósköpunum gengur hér á?"
„Fyrirgefðu herra, mig langaði bara svo mikið að dansa við litlu sætu nótuna í staðinn fyrir að segja alltaf eilíft úmpah, úmpah."
„Dansa!" Fiðlurnar veinuðu af hlátri. „Dansa, hafið þið nú heyrt það betra!"
Franska hornið bar höndina upp að munninum og brosti í laumi.
Og nú fór öll hljómsveitin að hlæja.
„Hættið!" hrópaði stjórnandinn. „Hættið þessu, segi ég!"
Nú var æfingin búin. Tobbi gekk heimleiðis með Fúsa flautu.
„Heyrðu, Fúsi", sagði Tobbi. „Mér líður svo illa, að ég held að ég verði að vera einn."
„Ég skil þig, vinur", sagði Fúsi. „Góða nótt". „Góða nótt", sagði Tobbi.
Það var tunglskin. Tobbi gekk niður að ánni og settist á trjábol. Og svo horfði hann á sjálfan sig speglast í hylnum. Og Tobbi söng um það hvað hann var einmana:
Aleinn sit ég hér, enginn er hér hjá mér,
Með sorg í hjarta sit ég hér,
að syngja einn, það mjög sárt er.
Það þaut í trjánum, fossarnir suðuðu, og gömul ugla vældi. Allt í einu stökk stór froskur upp úr vatninu, og settist á trjábolinn við hliðina á Tobba.
Bug-gup bug-gup, góða kvöldið, bug-gup.
Bug-gup ég sagði góða kvöldið, klunk-klunk.
Klunk-klunk ég sagði unaðslegt kvöld
Sæll bug-gup sæll bug-gup, sæll.
En Tobbi sat bara kyrr og þagði.
„Nú, jæja!" sagði froskurinn. „Jæja, ef ég trufla..."
„Ó nei", sagði Tobbi. „Í öllum bænum, herra froskur, komdu aftur. Ég ætlaði ekki að vera dónalegur!"
Og froskurinn hoppaði upp aftur.
„Oooh, það er allt í lagi. Ég er vanur því. Enginn tekur eftir mér."
„Er það satt?" sagði Tobbi.
„Nú, það er líkast til", sagði froskurinn. „Á hverju kvöldi sit ég hér og syng af hjartans lyst. En hlustar nokkur á mig? Nei!"
„Kanntu að syngja?" spurði Tobbi.
„Kann ég að syngja?" sagði froskurinn hneykslaður. „Hlustaðu bara!"
Og froskurinn söng lagið sitt fyrir Tobba túbu.
„Ehmm, já, þetta er alveg yndislegt", sagði Tobbi.
„Reyndu sjálfur", sagði froskurinn.
„Já, þakka þér fyrir", sagði Tobbi og spilaði af hjartans lyst.
„Sko til! Þú ert alveg sérlega góð túba. Veistu það? Tobbi, þú ættir að láta hljómsveitina þína heyra þetta."
„Já, veistu, ég ætla að gera það", sagði Tobbi. „Bless, kæri froskur!"
Og Tobbi fór heim í sjöunda himni.
Daginn eftir var hljómsveitin aftur að búa sig undir æfinguna. Allir voru mjög spenntir af því að það var kominn nýr stjórnandi: hinn frægi meistari Pizzicato.
Tobbi æfði sig á sínu úmpah-úmpah og brosti með sjálfum sér.
Fúsa flautu varð litið til hans. „Líður þér betur?"
„Já, já", sagði Tobbi og veifaði til hans.
„Þarna kemur hann", kallaði franska hornið, „þarna kemur hann! Meistari Pizzicato!"
„Ágætt", sagði stjórnandinn. Byrjið!
Og Tobbi byrjaði að spila litla lagið sitt.
„Oh, þetta túbufífl!" hvein í fiðlunum. „Hún verður okkur til skammar!"
Básúnan rak út úr sér tunguna, og trompetinn roðnaði alveg niður í tær.
„Tobbi", sagði meistari Pizzicato. „Tobbi, ég hef aldrei fyrr heyrt túbu spila svona fallegt lag. Við skulum heyra það allt."
„Ó", hugsaði Tobbi. „Nú fæ ég loksins tækifærið!"
„Nei, en dásamlegt", sögðu strengjahljóðfærin þegar þau heyrðu lagið hans.
„Elsku Tobbi", megum við spila lagið þitt líka?
„Hvað um mig? " hrópaði sílófónninn.
„Og ég, má ég", sagði básúnan.
„Og ég líka", sagði harpan.
„Hér kem ég!" hrópaði Fúsi flauta.
Og þau spiluðu öll saman.
„Jæja, Tobbi, okkur tókst það! Ekki satt?"
Það var froskurinn sem sat allt í einu hjá honum.
„Okkur er ekki alls varnað. Þetta gastu með því að trúa á sjálfan þig. Þú áttir ekkert að hugsa um hvað hinum hljóðfærunum finnst, heldur áttu bara að hlusta á sönginn sem ómar inni í þínu eigin hjarta."
„Ó", hugsaði Tobbi. „Hvað ég er hamingjusamur..."
SÖGULOK
- Eldri frétt
- Næsta frétt