EN

30. mars 2011

Maximus Musicus einn af bestu norrænu barnaleikjunum

Maximus Musicus, iPhone leikur íslenska sprotafyrirtækisins Fancy Pants Global, var í gær þann
29. mars tilnefndur til Nordic Game verðlaunanna sem besti norræni barnaleikurinn þetta árið.
Tilkynnt verður um sigurvegarann á Nordic Game ráðstefnunni sem fram fer í Malmö daganna
10-12. maí þar sem fulltrúar Fancy Pants Global verða viðstaddir. Tilnefning sem þessi er ungu
sprotafyrirtæki á borð við Fancy Pants Global gríðarlega mikilvæg og ánægjuleg.

Maximus Musicus leikurinn er hugsaður sem framlenging á boðskap barnabóka Hallfríðar
Ólafsdóttur um tónelsku músina Maximús Músíkús sem leiðir börn um króka og kima
tónlistarheimsins. Leikurinn er unnin í samstarfi við aðstandendur bókarinnar og skartar
tónlist í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Leikurinn var framleiddur með styrkjum frá
Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Menningarsjóði Reykjavíkurborgar.

Maximus Musicus leikurinn var gefinn út í desember á síðasta ári og hefur fengið góða dóma
gagnrýnenda auk þess sem hann hefur náð inn á lista yfir vinsælustu barna/fræðsluleikina í bæði
Þýskalandi og Kína. Fancy Pants Global er tæplega tveggja ára gamalt fyrirtæki sem hefur frá
stofnun einbeitt sér að framleiðslu leikja og hugbúnaðar fyrir iOS tæki á borð við iPhone og
iPad.