EN

5. september 2016

Nýr aðalhljómsveitarstjóri

Yan Pascal Tortelier tekur við

Fimmtudaginn 8. september stýrir hinn franski Yan Pascal Tortelier sínum fyrstu tónleikum sem aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Hann er meðal þekktustu stjórnenda í heimalandi sínu og nýtur virðingar um allan heim fyrir tónleika og hljóðritanir.

Að loknu námi í hljómsveitarstjórn hjá Franco Ferrara í Accademia Chigiana í Siena starfaði Tortelier um níu ára skeið sem aðstoðarhljómsveitarstjóri Orchestre National du Capitole de Toulouse. Hann var aðalhljómsveitarstjóri Ulster-hljómsveitarinnar í Belfast á Norður-Írlandi frá 1989–1992 og BBC-fílharmóníunnar á árunum 1992–2003. Þá var hann aðalgestastjórnandi Pittsburgh-sinfóníunnar frá 2005–2008 og aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitarinnar í São Paulo í Brasilíu frá 2009–2011 og er nú heiðursgestastjórnandi hennar. 

Yan Pascal Tortelier hefur í gegnum tíðina stjórnað mörgum af helstu hljómsveitum heimsbyggðarinnar þar á meðal London Symphony Orchestra, London Philharmonic Orchestra, Orchestre de Paris, Royal Concertgebouw Orchestra, Tékknesku Fílharmóníunni og Fílharmóníuhljómsveitinni í Sankti Pétursborg, Filharmonien í Osló, Filarmonica della Scala Milan, Philadelphia Orchestra, Los Angeles Philharmonic og sinfóníuhljómsveitunum í Boston, Chicago og Montreal.

Viðtal Kastjlóss við Yan Pascal Tortelier frá 7. september 2016

Tortelier hefur um langt árabil starfað fyrir Chandos-útgáfuna og hljóðritað fjöldamörg verk einkum með Ulster-hljómsveitinni og BBC-fílharmóníunni. Afraksturinn er meðal annars verðlaunadiskar með hljómsveitarverkum eftir Ravel (þar á meðal eigin hljómsveitarútsetning á píanótríói Ravels), César Franck, Albert Roussel og Henri Dutilleux.

Samningur Torteliers við hljómsveitina nær til þriggja ára og mun hann stjórna tónlist af ýmsum toga, nýrri og gamalli. Þó verður tónlist frá heimalandinu áberandi á efnisskrám hans eins og sjá má af verkefnavalinu í vetur, þar sem meðal annars er að finna tónverk eftir frönsku meistarana Debussy, Ravel, Fauré og Chausson.

Á þessu starfsári stýrir Yan Pascal Tortelier alls 7 tónleikum, næst 27. október.

Nánar