EN

29. júní 2021

Nýr samningur um Klassíkina okkar

Sinfóníuhljómsveit Íslands og RÚV halda nú í sjötta sinn tónleika í beinni sjónvarpsútsendingu á RÚV undir yfirskriftinni „Klassíkin okkar“. Að þessu sinni hefur Þjóðleikhúsið slegist í hópinn og verður því boðið til leikhúsveislu í Eldborg föstudaginn 3. september. Framúrskarandi söngvarar, leikarar, kórar og hljóðfæraleikarar sameinast í veislunni undir stjórn Daníels Bjarnasonar og flytja landsmönnum marga af gimsteinum leikhústónlistar sem hljómað hafa í leikhúsum og menningarhúsum landsins á síðustu áratugum.

Leikarar og einsöngvara sem taka þátt í tónleikunum eru meðal annarra Elmar Gilbertsson, Katrín Halldóra Sigurðardóttir, Álfheiður Erla Guðmundsdóttir, Emilíana Torrini, Jóhann Sigurðarson, Valgerður Guðnadóttir, Salka Sól Eyfeld, Kristjana Stefánsdóttir, Lay Low, Vigdís Hrefna Pálsdóttir, Þór Breiðfjörð, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Hallgrímur Ólafsson, Guðjón Davíð Karlsson og Hildur Vala Baldursdóttir . Einnig koma fram Stúlknakór Reykjavíkur, Söngsveitin Fílharmónía og leikhópur Þjóðleikhússins. Kynnar kvöldsins verða sem fyrr Halla Oddný Magnúsdóttir og Guðni Tómasson.

Klassíkin okkar hefur slegið rækilega í gegn á síðustu árum og er nú þegar orðin fastur liður í upphafi menningarvetrar landsmanna. Tónleikarnir í ár verða afar spennandi og frábært að fá Þjóðleikhúsið til liðs við okkur og flytja þjóðinni nýjar og gamlar leikhúsperlur sem laða fram allskonar tilfinningar og minningar  “ segir Lára Sóley Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands. 

Það er mikið tilhlökkunarefni að færa þjóðinni þessar ástsælu perlur sem áhorfendur eiga ógleymanlegar minningar um. Jafnframt er það afar ánægjulegt að þessar öflugu menningarstofnanir efli tengslin sín á milli enn frekar með þessu samstarfi,“ segir Magnús Geir Þórðarson, þjóðleikhússtjóri.

„Klassíkin okkar hefur fest sig í sessi sem einn af helstu menningarviðburðum í íslensku sjónvarpi. Sem er sérstaklega gleðilegt í ljósi þess að þar höfum við leitast við að færa sígilda tónlist nær þjóðinni með því að bera hana á borð með aðgengilegri hætti m.a. með því að gera áhorfendum kleift að taka þátt í efnisvalinu. Það fer því einkar vel á að nú sé komið að leikhústónlistinni því þar er að finna botnlausan brunn af sígildum leikhúslögum sem eru þjóðinni afar kær og verður sérlega ánægjulegt að bjóða upp á í flutningi framúrskarandi tónlistarfólks,“ Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri RÚV.