EN

2. október 2020

Ný og fjölbreytt dagskrá kynnt

Einleikarar úr hljómsveitinni, nýstirni og heimsþekktur tenór í glænýrri haustdagskrá

Sinfóníuhljómsveit Íslands kynnir nýja og fjölbreytta dagskrá til áramóta. Vegna kórónuveirunnar verður ekki unnt að halda í fyrri áform um tónleikahald sveitarinnar, sem gerðu ráð fyrir fjölda erlendra hljómsveitarstjóra og einleikara. Þess í stað mun Sinfóníuhljómsveitin halda ellefu tónleika sem verða um klukkustund án hlés og spannar efnisskráin vítt svið tónlistar, allt frá Vivaldi, Mozart, Beethoven og Schubert til nýrra og nýlegra verka, m.a. eftir Kaiju Saariaho, Hauk Tómasson og Önnu Þorvaldsdóttur. Kynntu þér dagskrána hér

Alls munu sextán einleikarar úr röðum hljómsveitarmeðlima leika einleik með hljómsveitinni og hafa aldrei jafnmargir meðlimir hljómsveitarinnar verið í einleikshlutverkinu á einu starfsári, hvað þá enn skemmri tíma. Meðal þeirra eru Áshildur Haraldsdóttir flautuleikari og Una Sveinbjarnardóttir fiðluleikari, en einnig verða í forgrunni hljóðfæri sem sjaldnar sjást í einleikshlutverki, til dæmis víóla, kontrabassi, óbó og bassabásúna, auk þess sem fjórir hornleikarar munu flytja glæsilegan konsert fyrir fjögur horn eftir Robert Schumann. Ástralski tenórsöngvarinn Stuart Skelton, einn virtasti tenórsöngvari samtímans, mun flytja hina frægu Wesendonck-söngva eftir Richard Wagner. Þá mun Álfheiður Erla Guðmundsdóttir sópran koma fram með hljómsveitinni í fyrsta sinn. Aðventutónleikar með hátíðlegri barokktónlist og hinir sívinsælu jólatónleikar verða á sínum stað í dagskránni og þá mun Maxímús Músíkús einnig gleðja yngstu áheyrendurna á fjölskyldutónleikum. Stjórnendur verða Eva Ollikainen aðalstjórnandi hljómsveitarinnar, Bjarni Frímann Bjarnason staðarhljómsveitarstjóri og Daníel Bjarnason aðalgestastjórnandi.

Ég er hæstánægð með nýja og ferska haustdagskrá Sinfóníuhljómsveitar Íslands, með styttri tónleikum, fjölmörgum einleikurum úr hópi hljóðfæraleikara sveitarinnar, og sem spannar afar breitt svið í stíl og tjáningu. Ég get ekki lagt næga áherslu á að okkur hefði aldrei tekist að búa til nýja áætlun á svo skömmum tíma ef ekki væri fyrir ótrúlega atorku og gífurlega jákvæðan stuðning og sveigjanleika frá öllu starfsliði og tónlistarfólki í Sinfóníuhljómsveit Íslands,

segir Eva Ollikainen, aðalhljómsveitarstjóri og listrænn stjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Það hefur verið áskorun að koma saman nýrri tónleikadagskrá síðustu daga en við erum afar ánægð með útkomuna og bjóðum upp á nýja glæsilega og spennandi dagskrá til áramóta. Við erum lánsöm að hafa hjá okkur nýráðinn aðalhljómsveitarstjóra, Evu Ollikainen, sem dvelur á Íslandi út nóvember og gefur okkur ómetanlegt tækifæri til þess að kynnast henni og setja hennar listrænu áherslur á fullt flug. Svo eigum við frábæra hljómsveitarstjóra sem búa á Íslandi, Bjarna Frímann Bjarnason og Daníel Bjarnason sem munu einnig vinna með okkur á næstu vikum. Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur sýnt og sannað á síðustu mánuðum að hún hefur mikla aðlögunarhæfni og ástríðu fyrir því að miðla tónlist sama hverjar aðstæðurnar eru. Allur þessi sköpunarkraftur verður nýttur út árið og á svið stíga einleikarar úr hljómsveitinni, nýstirni og heimsþekktur tenór. Allar áskoranir fela í sér tækifæri sem við munum svo sannarlega nýta og halda áfram að bjóða upp á tónlistarævintýri í hverri viku,

segir Lára Sóley Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri.

Dagskráin til áramóta hefur verið kynnt hér á vef hljómsveitarinnar. Almenn miðasala hefst mánudaginn 5. október kl. 13:00 en áskrifendur hljómsveitarinnar hafa forkaupsrétt þangað til.

Sinfóníuhljómsveit Íslands og Harpa leggja áherslu á ábyrgt viðburðahald og fylgja reglum og viðmiðum um samkomutakmarkanir. Útfærslur á viðburðahaldi hafa verið unnar í samstarfi við almannavarnir með fagmennsku og áreiðanleika að leiðarljósi. Í samræmi við sóttvarnarlög verður sætaframboð á tónleika takmarkað og eitt autt sæti milli allra pantana til að tryggja nálægðarmörk milli gesta.