EN
  • Home Delivery

18. ágúst 2020

Nýtt starfsár kynnt í ágúst

Sumarið er komið og viðburðaríkt en jafnframt óvenjulegt starfsár er á enda. Sinfóníuhljómsveit Íslands hélt upp á 70 ára afmæli sitt og fór í tvær glæsilegar tónleikaferðir til Þýskalands & Austurríkis og Bretlands.

Covid-heimsfaraldurinn setti strik í reikninginn og undir lok starfsársins þurfti hljómsveitin að aflýsa eða fresta fjölda tónleika sem voru á dagskrá vormánaða. Þar sem ekki var hægt koma saman og halda tónleika fór hljómsveitin óvenjulegar leiðir í starfi sínu og bauð upp á ýmiskonar heimsendingar til landsmanna í samkomubanni, heimsendingar frá hljóðfæraleikurum á samfélagsmiðlum, bein streymi úr Eldborg með kammertónlist í samstarfi við Hörpu, og þegar samkomuhöft voru rýmkuð kom hljómsveitin saman á ný og hélt skólatónleika í beinu streymi og þrenna glæsilega tónleika sem sjónvarpað var beint á RÚV og útvarpað á Rás 1. 

Nýtt starfsár 2020/21 kynnt í lok ágúst
Í byrjun næsta starfsárs tekur finnski hljómsveitarstjórinn Eva Ollikainen formlega við stöðu aðalhljómsveitarstjóra og listræns stjórnanda Sinfóníuhljómsveitar Íslands og stýrir meðal annars upphafstónleikum.

Framundan er spennandi, fjölbreytt og metnaðarfullt starfsár og er undirbúningur þess kominn langt á veg. Vegna óvenjulegra aðstæðna verður dagskráin ekki kynnt fyrr en í lok ágúst áður en endurnýjun og sala nýrra korta hefst. Áskrifendur hafa forkaupsrétt á sínum föstu sætum líkt og áður og geta nýtt inneign sína frá þessu starfsári (gjafakort) þegar endurnýjað er.

Við hlökkum til að taka á móti ykkur í Hörpu í haust þegar Sinfóníuhljómsveit Íslands stígur á svið á ný.

Hér má finna dagsetningar fyrir tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands á næsta starfsári.