EN

13. mars 2019

Óperan Brothers valin tónlistarviðburður ársins

Flutningur Íslensku óperunnar og Sinfóníuhljómsveitar Íslands á óperunni Brothers eftir Daníel Bjarnason á Listahátíð í Reykjavík árið 2018 var valinn tónlistarviðburður ársins í sígildri og samtímatónlist á Íslensku tónlistarverðlaununum 2019. Tónlistarhátíðin var haldin hátíðleg í Silfurbergi Hörpu miðvikudaginn 13. mars og send út í beinni útsendingu á RÚV. 

Anna Þorvaldsdóttir, staðartónskáld hljómsveitarinnar, hlaut á hátíðinni verðlaun fyrir tónverk ársins. Verkið Spectra var samið fyrir Ensemble Intercontemporain og má finna upptöku af því á nýútgefnum disk hennar AEQUA. 

Tónskáldið Jón Ásgeirsson hlaut heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir störf sín í þágu íslenskrar tónlistar. Í janúar síðastliðnum frumflutti Sinfóníuhljómsveit Íslands og Emilía Rós Sigfúsdóttir flautukonsert Jóns í Hörpu og fékk flutningurinn frábæra dóma.