EN

5. júlí 2016

Opið hús á Menningarnótt

Pétur og úlfurinn kl. 15 og Rússnesk veisla kl. 17

Á tónleikum kl. 15 er höfðað til yngri kynslóðarinnar með ævintýrinu sívinsæla um Pétur og úlfinn eftir Sergei Prokofíev. Sögunni fylgir bráðskemmtileg teiknimynd eftir Suzie Templeton sem hlaut Óskarsverðlaunin 2008 og sem gagnrýnandi Classic FM-tímaritsins kallaði „lítið meistaraverk“. Bjarni Frímann Bjarnason stýrir hér hljómsveitinni í fyrsta sinn, en hann hefur hlotið mikið lof fyrir tónlistargáfur sínar og var meðal annars útnefndur Bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum í vor. Tónleikarnir eru um það bil hálftími að lengd.

Rússnesk veisla kl. 17

Á seinni tónleikunum verður einnig leikin tónlist eftir rússneska meistara: forleikurinn að Rúslan og Lúdmílu eftir Glinka og fiðlukonsert Tsjajkovskíjs. Þar fer með einleikshlutverkið íslensk-spænski fiðluleikarinn Páll Palomares, sem hefur unnið til verðlauna í fjölda alþjóðlegra keppna undanfarin misseri. Hann kom fram með hljómsveitinni eftir að hafa orðið hlutskarpastur í einleikarakeppni SÍ og LHÍ árið 2007 og í vetur gegnir hann stöðu leiðarar 2. fiðlu Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Hljómsveitarstjóri er Bernharður Wilkinson.

Miðar á tónleikana

Hægt verður að nálgast miða á tónleikana samdægurs í miðasölu Hörpu.