EN

7. maí 2020

Ráðherra opnaði beint streymi Sinfóníuhljómsveitarinnar

Sinfóníuhljómsveit Íslands bauð börnum um land allt á skólatónleika í beinu streymi frá Hörpu fimmtudaginn 7. maí kl. 11.00. Í ljósi breyttra aðstæðna gat hljómsveitin nú sameinað krafta sína á ný á sviði í Eldborg. Trúðurinn Aðalheiður leiddi þar barnastund sem send var út í beinu streymi til leik- og grunnskóla um land allt á vef hljómsveitarinnar, sinfonia.is, auk þess sem tónleikarnir voru sýndir beint RÚV 2.

Einnig tók hljómsveitin á móti tveimur skólahópum í sal frá nágrannaskólum. Lilja Alfreðsdóttir Mennta- og menningarmálaráðherra ávarpaði áheyrendur um land allt í upphafi skólatónleikanna.

Það er dýrmætt að geta hafið dagskrána í maí á því að senda börnum landsins og kennurum þeirra sumargjöf með skólatónleikum í beinu streymi og fagna því að skólastarf sé nú aftur með eðlilegum hætti. Það er mikill heiður að Mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja D. Alfreðsdóttir, mun opna stundina. Í samstarfi við Hörpu verða tveir skólahópar gestir í sal á tónleikunum. Það er í sjálfu sér mikil áskorun, en gríðarlega mikilvægt skref. Í þessum nýja veruleika sem við búum í verða margar slíkar áskoranir framundan og mikilvægt að við byrjum strax að takast á við þær og læra,

segir Lára Sóley Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Sinfóníunnar.

20200507_DSC0210_SINFO

Hljómsveitin tók einnig á móti nemendum úr nágrannaskólum sem fylltu Hörpu af lífi. 

Á skólatónleikunum var leikin fjörmikil tónlist sem færir okkur vor í hjarta. Sigrún Eðvaldsdóttir konsertmeistari lék Vorið úr Árstíðunum eftir Vivaldi og hjómsveitin flutti einnig Kvæðið um fuglana og Dans svananna ásamt öðrum skemmtilegum lögum. Kynnir var trúðurinn Aðalheiður, leikinn af Völu Kristínu Eiríksdóttur, og hljómsveitarstjóri var Bjarni Frímann Bjarnason.

Beina streymið er opið öllum og útsending hefst kl. 11:00 á www.sinfonia.is og RÚV2. Tónleikarnir eru u.þ.b. 35 mínútur og eru túlkaðir á táknmáli.