EN

17. ágúst 2020

Ráðið í stöður viðburða- og skipulagsstjóra og verkefnastjóra viðburða

Gengið hefur verið frá ráðningu í stöður viðburða- og skipulagsstjóra og verkefnastjóra viðburða hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands. Um 40 umsóknir bárust um hvora stöðu fyrir sig. Halla Oddný Magnúsdóttir var ráðin í starf viðburða- og skipulagsstjóra og Valdís Þorkelsdóttir starf verkefnastjóra.

Halla Oddný Magnúsdóttir hefur áralanga reynslu af miðlun tónlistar í sjónvarpi og útvarpi, auk margvíslegs tónleika- og hátíðahalds. Halla lauk BA gráðu í mannvísindum frá Oxfordháskóla árið 2011 og stundar nám á MA-stigi við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Halla lauk jafnframt burtfararprófi á píanó frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 2008 með ágætiseinkunn.

Halla starfar í dag sem framleiðslustjóri hjá hljóðbókaveitunni Storytel, en hún hefur frá árinu 2012 verið sjálfstætt starfandi fjölmiðlakona í sjónvarpi og útvarpi fyrir RÚV. Meðal verkefna hennar hafa verið tónlistarþættir á borð við Músíkmola (2020) og Útúrdúr (2012-15), umsjón með Menningunni í Kastljósi (2016-17) og umsjón með árlegri sjónvarpsútsendingu á Klassíkinni okkar í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Íslands frá 2016, auk fjölda annarra þátta og útsendinga. Halla vann heimildarmynd um ferð Sinfóníuhljómsveitar Íslands til Japan 2018 og hefur haft umsjón með fjölda beinna útsendinga Sinfóníuhljómsveitar Íslands á Rás 1. Hún hefur einnig komið að margvíslegri dagskrárgerð í útvarpi um tónlist. Halla hefur jafnframt verið sjálfstætt starfandi textahöfundur og fyrirlesari og sinnt skrifum um tónlist fyrir m.a. plötufyrirtækið Deutsche Grammophon, tónlistarhátíðina Vinterfest í Svíþjóð, Íslensku óperuna og Sinfóníuhljómsveit Íslands, auk fyrirlestrahalds fyrir Íslensku óperuna og Vinafélag Sinfóníunnar.

Árið 2018 var Halla listrænn stjórnandi Tónlistarhátíðar Rásar 1 auk þess sem hún hefur sinnt verkefnastjórn við Bókmenntahátíð í Reykjavík og listrænni ráðgjöf við Reykjavík Midsummer Music. Á árunum 2013-15 starfaði Halla sem fréttamaður í afleysingum á fréttastofu RÚV. Á árunum 2013-14 vann hún sem almannatengslafulltrúi hjá almannatengslafyrirtækinu Sepia Communications í Lundúnum.

Valdís Þorkelsdóttir lauk meistaranámi í menningarstjórnun frá City, University of London 2014 og BA í tónlistarflutningi árið 2013 frá DIT Conservatory of Music and Drama í Dublin. Þá lauk Valdís burtfararprófi í klassískum trompetleik frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 2011.

Valdís hefur starfað við verkefnastjórnun og aðstoð við menningartengda dagskrárgerð hjá RÚV. Hún hefur verið framkvæmdastjóri Myrkra músíkdaga frá 2017 og framkvæmdastjóri Les Fréres Stefson/ 101derland 2018–19. Valdís vann sem móttökustjóri og verkefnastjóri í hlutastarfi á Gljúfrasteini - húsi skáldsins á árunum 2017–19 og sá um skipulagningu á tónleikaröðinni “Stofutónleikar á Gljúfrasteini” sumrin 2017, 2018 og 2019. Valdís var starfsnemi hjá IMG Artists umboðsskrifstofunni í Lundúnum árið 2014.

Valdís var trompetleikari og bakraddasöngkona í Florence + The Machine og tók þátt í tónleikaferðalagi sveitarinnar 2015-16 þegar sveitin spilaði á 120 tónleikum í 111 borgum. Valdís var trompetleikari með Björk Guðmundsdóttur og tók þátt í tónleikaferðalagi Bjarkar frá 2007–08 þar sem spilað var á 74 tónleikum í 66 borgum.