EN

2. október 2019

Sex þúsund nemendur á skólatónleikum í vikunni

Í þessari viku heldur Sinfóníuhljómsveit Íslands sex skólatónleika í Hörpu og tekur á móti um 6.000 nemendum úr grunnskólum. Þá verða síðustu skólatónleikar vikunnar á föstudaginn kl. 11.00 teknir upp í mynd og streymt beint til skóla um allt land. Streymið verður aðgengilegt hér á vef hljómsveitarinnar www.sinfonia.is/bein-utsending/.

Á tónleikunum er nemendum boðið í tímaflakk um tónheima þar sem Sinfóníuhljómsveitin flytur sig eftir tímaás tónlistarsögunnar og staldrar við merk kennileiti. Leiðsögumenn í þessum skemmtilega leiðangri eru leikararnir Þuríður Blær Jóhannsdóttir og Guðmundur Felixson. Bandaríski hljómsveitarstjórinn Michelle Merill heldur um tónsprotann en hún er þekkt fyrir störf sín með ungu fólki og hefur stýrt fjölmörgum menntaverkefnum og tónleikum í Bandaríkjunum.

Skólatónleikarnir eru hluti af metnaðarfullu fræðslustarfi hljómsveitarinnar en ár hvert heldur hún fjölmarga tónleika þar sem nemendum allt frá leikskólaaldri til framhaldsskólanema er boðið að hlusta á vandaða dagskrá í tali og tónum. Á síðasta starfsári tók Sinfóníuhljómsveit Íslands á móti ríflega 15.000 nemendum í Hörpu.