EN

23. nóvember 2020

Sigurvegarar í keppni ungra einleikara 2021

Árlega fer fram keppni ungra einleikara sem Sinfóníuhljómsveit Íslands og Listaháskóli Íslands standa fyrir í sameiningu. Keppnin er opin nemendum á háskólastigi óháð því hvaða skóla þeir sækja og fá þeir hlutskörpustu að koma farm sem einleikari eða einsöngvari með Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikum í Eldborg. 

Keppnin í ár var haldin með nýju og breyttu sniði og nú geta nemendur á öllum námsstigum háskólans tekið þátt og aldurstakmar hafur verið afnumið. Að þessu sinni voru keppendur ellefu talsins. Í dómnefnd sátu Árni Heimir Ingólfsson píanóleikari og tónlistarfræðingur, Una Sveinbjarnardóttir fiðluleikari, Sigurður Þorbergsson básúnuleikari og Herdís Anna Jónasdóttir söngkona. Niðurstöður dómnefndar liggja nú fyrir og báru fjórir framúrskarandi tónlistarnemar sigur úr býtum að þessu sinni.

Þau eru:
Íris Björk Gunnarsdóttir, söngur
Johanna Brynja Ruminy, fiðla
Jón Arnar Einarsson, básúna
Marta Kristín Friðriksdóttir, söngur

Sigurvegararnir munu stíga á svið með Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikum í Eldborg undir stjórn Önnu-Mariu Helsing fimmtudaginn 14. janúar 2021. Það verður gaman að fylgjast með þessum ungu hljóðfæraleikurum og söngvurum taka sín fyrstu skref á stóra sviðinu.

Við þökkum öllum flytjendum kærlega fyrir þátttökuna og óskum sigurvegurunum fjórum innilega til hamingju með árangurinn.