EN

11. janúar 2017

Sinfónían á Myrkum músíkdögum

Tvennir tónleikar og málstofa

Tónlistarhátíðin Myrkir músíkdagar er vettvangur fyrir nýja og spennandi íslenska tónlist og heldur Sinfóníuhljómsveit Íslands tvenna tónleika og málstofu á hátíðinni í ár.

Opin málstofa um stöðu íslenskrar hljómsveitartónlistar verður haldin 25. janúar í Kaldalóni, fyrstu hæð Hörpu. Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur allt frá stofnun verið ötull flytjandi íslenskrar hljómsveitartónlistar enda er það eitt af lögbundnum hlutverkum hennar að leggja rækt við íslenska tónsköpun. En hvernig sinnir Sinfóníuhljómsveitin best hlutverk sínu gagnvart íslenskri tónlist? Hvernig er hægt að efla samtal og samvinnu milli tónskálda og hljómsveitarinnar? Þetta er viðfangsefni málstofu sem SÍ stendur fyrir á Myrkum músíkdögum. Arna Kristín Einarsdóttir framkvæmdastjóri SÍ og Árni Heimir Ingólfsson listrænn ráðgjafi SÍ flytja stutt innlegg, en því næst taka við pallborðsumræður þar sem einnig taka þátt Daníel Bjarnason staðarlistamaður SÍ, Atli Ingólfsson prófessor við Listaháskóla Íslands, Þórunn Gréta Sigurðardóttir formaður TÍ og Arna Margrét Jónsdóttir tónskáldanemi.

Fyrri tónleikar Sinfóníunnar eru í Eldborg fimmtudaginn 26. janúar undir stjórn Petri Sakari. Frumfluttur verður víólukonsert eftir Hauk Tómasson, saminn fyrir Þórunni Ósk Marínósdóttur, leiðara víóludeildar Sinfóníunnar. Einnig verður frumflutt nýtt hljómsveitarverk eftir Kristínu Þóru Haraldsdóttur en verk hennar, Water's Voice, vakti mikla eftirtekt á Tectonics-tónlistarhátíðinni árið 2015. Þá verða leikin verk eftir Úlf Hansson, Atla Heimi Sveinsson og Thomas Adès.

Seinni tónleikar hljómsveitarinnar eru uppskerutónleikar Yrkju í Norðurljósum í hádeginu föstudaginn 27. janúar. Daníel Bjarnason, staðarlistamaður hljómsveitarinnar, stýrir Yrkju sem samstarfsverkefni Íslenskrar tónverkamiðstöðvar og Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Hann leiðir vinnustofur með tónskáldunum og stjórnar auk þess tónleikunum þar sem verkin hljóma fullmótuð. Í ár voru Finnur Karlsson, Þórunn Gréta Sigurðardóttur og Þráinn Hjálmarsson valin til að vinna með Sinfóníunni og verða glæný verk þeirra flutt á tónleikunum.

Frítt er inn á Yrkju-tónleikana og allir velkomnir.