Sinfónían leikur undir Hnotubrjótnum í Eldborg
Sígilt ævintýri við tónlist Tsjajkovsíjs lifnar við
Í nóvember snýr St. Petersburg Festival Ballet aftur í Hörpu og sýnir Hnotubrjótinn við tónlist Pjotrs Tsjajkvoskíj. Hnotubrjóturinn er einn allra vinsælasti ballett sögunnar en flokkurinn flutti verkið hér á landi fyrir tveimur árum og vakti mikla lukku áhorfenda. Hnotubrjóturinn er ómissandi hluti af jóladagskrá margra tónleikahúsa erlendis og börn jafnt sem fullorðnir hlakka árlega til þess að njóta uppfærslunnar.
Sinfóníuhjómsveit Íslands leikur undir sýningum ballettsins í Eldborg. Hljómsveitin hefur tekið þátt í ýmsum ballettuppfærslum í gegnum tíðina. Má þar nefna samvinnu við Þjóðleikhúsið, ballettinn Baldr eftir Jón Leifs sem var fluttur árið 2000 þegar Reykjavík var menningarborg og Vorblótið og Petrushka eftir Stravinskíj, uppfærslur sem fluttar voru í samvinnu við Íslenska dansflokkinn á Listahátíð í Reykjavík 2013. Tónlist Tsjajkovskíjs er tíður gestur á tónleikaskrám Sinfóníuhljómsveitarinnar en á síðasta ári lék hljómsveitin í uppfærslu St. Petersburg Festival Ballet á Svanavatninu.
Sagan er einstaklega hrífandi en á aðfangadagskvöld fær María fallegan hnotubrjót að gjöf frá hinum dularfulla Drosselmeyer. Atburðarásin tekur óvænta stefnu þegar leikföngin undir jólatrénu lifna við og inn koma mýs í einkennisbúningum. Hnotubrjóturinn breytist í prins og leiðir Maríu inn í ævintýraland þar sem ýmislegt óvænt gerist. Tónlist Tsjajkovskíjs er ein sú eftirminnilegasta af þeim ballettum sem samdir hafa verið. Í verkinu eru margar laglínur sem flestir þekkja vel og halda upp á.
- Eldri frétt
- Næsta frétt