EN

6. nóvember 2017

Sinfónían leikur undir Þyrnirós í Eldborg 23. - 25. nóvember

Sígilt ævintýri við tónlist Tsjajkovsíjs lifnar við

St. Petersburg Festival Ballet snýr aftur í Hörpu og sýnir Þyrnirós við tónlist Pjotrs Tsjajkvoskíj í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Alls verða fjórar balletsýningar dagana 23. - 25. nóvember en sýningar dansflokksins hafa fest sig í sessi á Íslandi og börn jafnt sem fullorðnir hlakka árlega til þess að njóta uppfærslunnar.

Sinfóníuhjómsveit Íslands leikur undir sýningum ballettsins í Eldborg. Hljómsveitin hefur tekið þátt í ýmsum ballettuppfærslum í gegnum tíðina. Má þar nefna samvinnu við Þjóðleikhúsið, ballettinn Baldr eftir Jón Leifs sem var fluttur árið 2000 þegar Reykjavík var menningarborg og Vorblótið og Petrushka eftir Stravinskíj, uppfærslur sem fluttar voru í samvinnu við Íslenska dansflokkinn á Listahátíð í Reykjavík 2013. Tónlist Tsjajkovskíjs er tíður gestur á tónleikaskrám Sinfóníuhljómsveitarinnar en á síðasta ári lék hljómsveitin í uppfærslu St. Petersburg Festival Ballet á Svanavatninu.

Sagan um hina fögru sofandi prinsessu og hinn hugrakka prins sem vekur hana upp með álagakossi er mönnum löngu kunn og hefur þessi tímalausa ástarsaga um sigur hins góða yfir hinu illa heillað áheyrendur. Þyrnirós er einn stórkostlegasti ballett hinna klassísku dansbókmennta, en tónskáldið taldi sjálfur verkið sinn besta ballett.

Í konungsríki einu fæddist prinsessa að nafni Þyrnirós. Illa álfkonan Skaði lagði á hana þá bölvun að á sextánda afmælisdaginn myndi hún stinga sig á snældu og deyja. Góða álfkonan Gefjun kom til bjargar og breytti bölvuninni á þann veg að Þyrnirós, ásamt öllu konungsríkinu myndi falla í djúpan svefn í staðinn og vakna aðeins við sannan ástarkoss. Hundrað árum síðar hélt hinn hugrakki Filipus prins af stað og freistaði þess að rjúfa álögin.

Stórkostleg tónlist Tsjajkvoskíjs og hrífandi danshreyfingar Marius Petipa flytja áheyrendur um töfrum gæddan heim fullan af undrum og ævintýrum.

Kaupa miða