EN

24. ágúst 2021

Sinfóníuhljómsveit Íslands hljóðritar fyrir Deutsche Grammophon

Verk Jóhanns Jóhannssonar tekin upp

Sinfóníuhljómsveit Íslands hljóðritar tónlist eftir Jóhann Jóhannsson fyrir hið virta forlag Deutsche Grammophon. Upptökurnar fara fram í þessari viku í Eldborg undir stjórn Daníels Bjarnasonar og er þetta í fyrsta sem hljómsveitin hljóðritar sértaklega fyrir Deutsche Grammophon. Eitt stærsta sinfóníska verk Jóhanns, A Prayer to the Dynamo, verður hljóðritað ásamt tónlist hans úr kvikmyndunum Theory of Everything og Sicario.

Jóhann Jóhannsson var eitt þekktasta kvikmyndatónskáld samtímans þegar hann féll frá langt fyrir aldur fram 2018. Hann hlaut meðal annars Golden Globe-verðlaunin árið 2014 fyrir tónlist sína við kvikmyndina The Theory of Everything, og var tvívegis tilnefndur til Óskarsverðlauna.  Hljómsveitin hefur áður flutt tónlist Jóhanns á tónleikum The Miners' Hymns árið 2014 og tónlist hans úr The Theory of Everything og Prisoners árið 2016.

Ár hvert hljóðritar Sinfóníuhljómsveitin verk til alþjóðlegrar útgáfu í samstarfi við leiðandi útgáfufyrirtæki á heimsvísu. Áhugi erlendra útgefenda á samstarfi við hljómsveitina hefur farið vaxandi á síðustu árum, ekki síst þegar kemur að útgáfu á íslenskri tónlist. Á þessu starfsári mun hljómsveitin hljóðrita tvær aðrar plötur með íslenskri tónlist til alþjóðlegrar útgáfu. Bandaríska útgáfan Sono Luminus hljóðritar ný íslensk og bandarísk tónverk undir stjórn Daníels Bjarnasonar. Sinfóníuhljómsveit Íslands og Daníel Bjarnason voru einmitt tilnefnd til til hinna virtu Grammy-verðlauna á síðasta ári í flokknum Besti hljómsveitarflutningur fyrir diskinn Concurrence sem kom út hjá sama forlagi. Þá tekur Chandos upp íslenskri ballett- og leikhústónlist eftir Jórunni Viðar og Pál Ísólfsson undir stjórn Rumon Gamba og koma sum þeirra verka nú út í fyrsta sinn.