EN

30. ágúst 2019

Aukið samstarf Sinfóníunnar og RÚV með nýjum samningi

Á lokaæfingu í dag fyrir tónleikana Klassíkin okkar sem sjónvarpað verður beint í kvöld á RÚV, skrifuðu Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri og Lára Sóley Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands undir nýjan samstarfssamning, ásamt Bergljótu Haraldsdóttur verkefnastjóra tónlistar á Rás 1, Hjördísi Ástráðsdóttur, fræðslustjóra SÍ og Margréti Ragnarsdóttur, markaðs- og kynningarstjóra SÍ.

RÚV og Sinfóníuhljómsveit Íslands taka höndum saman um að efla enn frekar miðlun fjölbreyttrar tónlistar og vinna saman að áhugverðri dagskrá sem á erindi við landsmenn alla og kappkosta að skapa sem mest samfélagsleg verðmæti. Rás 1 mun líkt og áður útvarpa beint frá flestum tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpu ásamt því að framleiða vandað og fræðandi dagskrárefni í tengslum við tónleikana. Klassíkin okkar þar sem þjóðin velur efnisskránna, hóf göngu sína fyrir fjórum árum hefur vakið mikla lukku og mun halda áfram en einnig er stefnt að fjölgun sjónvarpsútsendinga á næstu misserum. Þá verður þáttur barnamenningar aukinn í samstarfinu en bæði Sinfóníuhljómsveit Íslands og RÚV hafa lagt mikla áherslu á dagskrá fyrir yngstu kynslóðina sem er í senn fræðandi og skemmtileg.

Sinfóníuhljómsveit Íslands og RÚV hafa átt langt og gjöfult samstarf allt frá stofnun hljómsveitarinnar og hefur það aukist á síðustu árum og er Klassíkin okkar gott dæmi um það. Okkar farsæla samstarf við RÚV er lykilinn að því að við sem hljómsveit getum miðlað tónlist til landsmanna og mikilvægur hlekkur þegar kemur að flutningi tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands hjá erlendum útvarpsstöðum. Með þessum nýja samningi útvíkkum við samtal og samstarf stofnananna enn frekar og leggjum sérstaka áherslu á samstarf á sviði barnamenningar. Það veitir okkur dýrmætt tækifæri til þess að miðla fræðslustarfi hljómsveitarinnar sem hefur vaxið hratt og dafnað á síðustu árum,

segir Lára Sóley Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Við erum afskaplega stolt af því samstarfi sem RÚV og Sinfóníuhljómsveitin hafa átt um árabil og hvernig það hefur eflst á síðustu árum. Klassíkin okkar er glæsilegt verkefni sem vekur áhuga og fangar athygli landsmanna árlega, það er gott dæmi um hvernig menningarstofnanir geta unnið saman og skapað aukin samfélagsleg verðmæti. Við búum að því að eiga glæsilega Sinfóníuhljómsveit og því er það með mikilli ánægju sem við eflum samstarfið enn frekar. Það er í takt við aðra þróun hjá RÚV á síðustu árum þar sem áhersla á innlent efni og menningarefni hefur verið aukin markvisst. Og svo er kjörið að hin dásamlega Maximus músíkmús og annað í barnastarfi hljómsveitarinnar birtist börnum landsins í KrakkaRÚV,


segir Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri.