EN

15. febrúar 2017

Skólatónleikar Sinfóníunnar

Á hverju starfsári heldur Sinfóníuhljómsveit Íslands fjölmarga skólatónleika þar sem nemendum, allt frá leikskólaaldri til framhaldsskólanema, er boðið að hlusta á vandaða dagskrá í tali og tónum.

Í þessari viku heldur hljómsveitin fimm skólatónleika í Eldborg fyrir leiksskóla og grunnskóla það sem nemendum er boðið á tónleika með sögunni um Skrímslið litlu systur mína eftir Helgu Arnalds og Eivør Pálsdóttur. Einnig streyma tæplega 100 skólar frá tónleikunum víðsvegar frá landinu.

Eivør og leikkonan Halldóra Geirharðsdóttir, ásamt barnakórnum Graduale Futuri flytja söguna með hljómsveitinni við myndefni Bjarkar Bjarkadóttur. Hljómsveitarstjóri er Bernharður Wilkinson.

Í síðustu viku tók hjómsveitin á móti um 4.000 nemum á skólatónleikum fyrir eldri bekki grunnskóla þar sem uppistandarinn Ari Eldjárn fór á kostum með Sinfóníuhjómsveit Íslands.

Öflugt og fjölþætt fræðslustarf er mikilvægur þáttur í starfsemi Sinfóníuhljómsveitar Íslands og hefur verið allt frá stofnun hennar. Á síðasta starfsári lék hjómsveitin fyrir um 14.000 nemendur bæði á skólatónleikum og í heimsóknum í skóla.