EN

23. ágúst 2019

Speglum fortíðina, mótum framtíðina

Ávarp frá Láru Sóleyju Jóhannsdóttur framkvæmdastjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands

Ég er full tilhlökkunar og eftirvæntingar fyrir nýju starfsári Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sem jafnframt verður mitt fyrsta ár í starfi. Ég er stolt af því að tilheyra samfélagi sem hefur hlúð jafn vel að þjóðarhljómsveit sinni og Íslendingar hafa gert í hartnær 70 ár. Hljómsveitin er flaggskip íslenskrar menningar, á erindi við alla landsmenn og er mikilvægt afl í að kynna menningu okkar, land og þjóð á listasviði heimsins. 

Hljómsveitin hefur um árabil haft það að markmiði sínu að styrkja listræna framþróun og alþjóðlega stöðu íslenskrar menningar. Það hefur svo sannarlega tekist og er Japansferð hljómsveitarinnar á síðasta starfsári dæmi um slíkan árangur. Erlend eftirspurn eftir tónleikum hljómsveitarinnar, íslenskri tónlist og tónlistarfólki hefur aukist gríðarlega. Á komandi starfsári mun hljómsveitin halda í tvær tónleikaferðir til útlanda. Í nóvember leikur hún í Þýskalandi og Austurríki þar sem Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari verður með í för. Daníel Bjarnason, nýráðinn aðalgestastjórnandi Sinfóníunnar, mun stjórna hljómsveitinni og á efnisskránni verða meðal annars verk eftir Daníel og Önnu Þorvaldsdóttur, staðartónskáldið okkar. Í febrúar verður síðan haldið til Bretlands þar sem leiknir verða átta tónleikar undir stjórn Yan Pascal Tortelier. Anna Þorvaldsdóttir verður með í för og verk hennar, Aeriality, verður flutt á öllum tónleikunum. Hljómsveitin heldur einnig í tvær tónleikaferðir innanlands á starfsárinu og að þessu sinni verða Ísafjörður og Reykjanesbær heimsóttir. 

Í mars fagnar Sinfóníuhljómsveit Íslands 70 ára afmæli sínu með glæsilegum tónleikum í Eldborg þar sem Eva Ollikainen, nýráðin aðalhljómsveitarstjóri og listrænn stjórnandi hljómsveitarinnar, stjórnar verkum eftir Pál Ísólfsson, Jean Sibelius og Gustav Mahler. Afmælisgleðin heldur svo áfram í lok maí þegar þrjár listastofnanir sameinast um verkefni sem verður tvímælalaust stórviðburður í tónlistarlífi þjóðarinnar. Auk Sinfóníuhljómsveitar Íslands fagna Íslenska óperan og Listahátíð í Reykjavík stórafmælum árið 2020. Við munum því sameinast um að setja upp Valkyrjuna eftir Richard Wagner og verður það í fyrsta sinn sem verkið er flutt í fullri lengd á Íslandi.

En afmælin á starfsárinu eru fleiri. Mikilvægur þáttur í fræðslustarfi hljómsveitarinnar er starf Ungsveitar Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sem í september fagnar 10 ára afmæli sínu. Af því tilefni mun Ungsveitin leika hina glæsilegu níundu sinfóníu Beethovens á tónleikum þann 22. september ásamt ungum einsöngvurum auk þess sem fjöldi kóra tekur þátt í verkefninu.

Sinfóníuhljómsveit Íslands er á hraðri siglingu. Þessi einstaka og metnaðarfulla hljómsveit, þar sem valinn maður er í hverju rúmi, mun á starfsárinu fylla Hörpu og fjölda annarra tónleikasala víðsvegar um Evrópu af ógleymanlegum augnablikum. Með starfi okkar speglum við fortíðina en mótum um leið framtíðina. Við erum full eftirvæntingar og hlökkum til þess að eiga samtal við hlustendur okkar í gegnum tungumál tónlistarinnar sem sameinar alla á sinn einstaka hátt. 

Njótið vel!