EN

23. júní 2021

Syngjandi hljómsveitarstjórinn Barbara Hannigan

Ein dáðasta tónlistarkona samtímans kemur til Íslands í fyrsta sinn

Kanadíska sópransöngkonan og hljómsveitarstjórinn Barbara Hannigan stjórnar og syngur með Sinfóníuhljómsveit Íslands á tvennum tónleikum í Hörpu á opnunarhelgi Listahátíðar í Reykjavík 2022. Barbara Hannigan kemur nú í fyrsta sinn til Íslands og er um er að ræða stórviðburð í íslensku tónlistarlífi.

Barbara Hannigan hefur vakið feykilega aðdáun um heim allan undanfarin ár, fyrir stórfenglegan söng en ekki síður hæfileika sína sem hljómsveitarstjóri. Hún hefur starfað með fremstu sinfóníuhljómsveitum heims og frumflutt yfir 85 ný tónverk, þeirra á meðal verk eftir György Ligeti og Hans Abrahamsen. Þá hefur hún sungið í helstu óperuhúsum heims, meðal annars hið krefjandi titilhlutverk í Lulu eftir Alban Berg.

Hannigan hefur hlotið ótal verðlaun fyrir list sína og má þar nefna Grammy-verðlaun fyrir plötuna Crazy Girl Crazy árið 2018 og hin virtu Léonie Sonning-verðlaun árið 2020. Þegar Rolf Schock-verðlaunin féllu henni í skaut rökstuddi dómnefndin ákvörðun sína með þeim orðum að Hannigan væri „einstakur og framsækinn flytjandi sem nálgast tónlistina sem hún flytur með öflugum og lifandi hætti.“

Það er mikið ánægjuefni að okkur hafi loks tekist að fá Barböru Hannigan til Íslands eftir nokkrar tilraunir. Með mikilvægri samvinnu Listhátíðar og Sinfóníuhljómsveitarinnar verður hægt að bjóða upp á tvenna tónleika, opnunarhelgi Listahátíðar 2022, með einstakri listakonu og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Barbara hefur með hljómsveitarstjórn og söng sínum heillað heimsbyggðina og nú er komið að okkur að fá að njóta hæfileika hennar,

segir Lára Sóley Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Tónleikarnir fara fram í Eldborg í Hörpu 3. og 4. júní 2022. Efnisskráin verður kynnt síðar en almenn miðasala hefst mánudaginn 28. júní hér á vef hljómsveitarinnar.