EN

20. febrúar 2019

Tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2018

Tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2018 voru kynntar miðvikudaginn 20. febrúar. Sinfóníuhljómsveit Íslands og listamenn sem störfuðu með hljómsveitinni á árinu hlutu fjölda tilnefninga en verðlaunaafhendingin verður haldin við hátíðlega athöfn í Hörpu miðvikudaginn 13. mars 2019 í beinni útsendingu á RÚV.

Tónlistarviðburður ársins

Frumflutningur Sinfóníuhljómsveitar Íslands á Eddu II eftir Jón Leifs er tilnefndur sem tónlistarviðburður ársins. Hljómsveitin flutti verkið ásamt Hönnu Dóru Sturludóttur, Elmari Gilbertssyni, Kristni Sigmundssyni og Schola cantorum (Hörður Áskelsson, kórstjóri) undir stjórn hljómsveitarstjórans Hermann Bäumer.

Íslendingasögur: Sinfónísk sagnaskemmtun eru einnig tilnefnd sem viðburður ársins í sígildri- og samtímatónlist. Viðburðurinn var liður í hátíðardagskrá í tilefni af aldarafmæli fullveldis Íslands og flutti Sinfóníuhljómsveit Íslands fjölbreytta tónlist í Eldborg undir stjórn Bjarna Frímanns Bjarnasonar.

Sýningin á óperunni Brothers eftir Daníel Bjarnason er einnig tilnefnd sem Tónlistarviðburður ársins en verkið var valið Tónverk ársins á sömu hátíð í fyrra en óperan  var frumflutt í Danmörku árið áður. Íslenska óperan í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Íslands og Den Jyske Opera stóð að sýningunni í Eldborg á Listahátíð í Reykjavík 2018.

Anna Þorvaldsdóttir með þrjár tilnefningar

Anna Þorvaldsdóttir, staðartónskáld Sinfóníuhljómsveitar Íslands, hlaut þrjár tilnefningar á Íslensku tónlistarverðlaununum í ár. Verkið Metacomsos, sem Sinfóníuhljómsveit Íslands frumflutti á Íslandi í janúar síðastliðnum, er tilnefnt sem Tónverk ársins sem og verkið Spectra sem var samið fyrir NJORD tvíæringinn (New Nordic Music Bienalle) og frumflutt af Danska píanókvintettinum. Platan hennar AEQUA er einnig tilnefnd sem Plata ársins í flokki sígildrar og samtímatónlistar en platan hefur fengið lofsama dóma gagnrýnenda víða um heim.

Maxímús Músíkús tilnefndur í opnum flokki

Nýjasta tónlistarævintýrið um músina, Maxímús Músíkús fer á fjöll, fær tilnefningu sem Plata ársins í opnum flokki. Útgáfan inniheldur hljóðbókina af nýjasta ævintýrinu um Músina tónelsku ásamt íslenski tónlist í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Fjölbreyttur hópur listamanna

Þá er fjölbreyttur hópur listamanna tilnefndur, sem hafa unnið með Sinfóníuhljómsveit Íslands á síðastliðnu ári, tilnefndir á Íslensku tónlistarverðlaununum í ár. Meðal flytjenda má nefna Sæunni Þorsteinsdóttur, sellóleikara og Víking Heiðar Ólafsson, píanista sem m.a. komu fram sem einleikarar með hljómsveitinni á tónleikum sveitarinnar á Myrkum músíkdögum. Una Sveinbjarnardóttur fiðluleikari og hljóðfæraleikara í Sinfóníuhljómsveit Íslands er einnig tilnefnd sem Flytjandi ársins. Meðal flytjenda sem voru tilnefndir í flokknum hópur í Sígildri- og samtímatónlist má nefna Schola cantorum, sem frumflutti Eddu II með hljómsveitinni, og Strokkvartettinn Sigga sem samastendur af hljóðfæraleikurum úr Sinfóníuhljómsveit Íslands. Meðal einssöngvara sem eru tilnefndir í Sígildri- og samtímatónlist má nefna Odd Arnþór Jónsson sem söng aðalhlutverkið í óperunni Brothers eftir Daníel Bjarnason og Hönnu Dóru Sturludóttur sem söng bæði í Brothers og í Eddu II með hljómsveitinni. Valgerður Guðnadóttir er einnig tilnefnd sem flytjandi ársins en hún kom m.a. fram sem einsöngvari á Vínartónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Verkið Silfurfljót eftir Áskel Másson er einnig tilnefnt sem Tónverk ársins en konsertinn samdi Áskell fyrir klarínettuleikarann Einar Jóhannesson sem frumflutti hann með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Eldborg.