EN

  • Home Delivery

19. febrúar 2020

Sinfónían tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2019

Sinfóníuhljómsveit Íslands hlut þrjár tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2019, sem flytjandi ársins, fyrir plötu ársins og tónlistarviðburð ársins. Verðlaunaafhendingin verður haldin í Hörpu miðvikudaginn 11. mars í beinni útsendingu á RÚV.

Sinfóníuhljómsveit Íslands er tilnefnd sem flytjandi ársins fyrir hljóðritanir og útgáfur á árinu ásamt tónleikum og tónleikaferð hljómsveitarinnar til Þýskalands og Austurríkis með Daníel Bjarnasyni, aðalgestastjórnanda Sinfóníunnar, og Víkingi Heiðari Ólafssyni.

Concurrence er tilnefnd sem plata ársins í sígildri- og samtímatónlist en platan er gefin út af bandaríska útgáfufyrirtækinu Sono Luminus. Á disknum má heyra verk eftir Önnu Þorvaldsdóttur, Hauk Tómasson, Maríu Huld Markan Sigfúsdóttur og Pál Ragnar Pálsson. Hljómsveitarstjóri í upptökunum var Daníel Bjarnason. Þá er Daniel Shores einnig tilnefndur sem upptökustjóri ársins fyrir plötuna. 

Tónleikar hljómsveitarinnar á Myrkum músíkdögum undir stjórn Daníels Bjarnasonar eru tilnefndir sem viðburður ársins í sígildri- og samtímatónlist en á tónleikunum frumflutti hljómsveitin m.a. Crevace, konsert fyrir flautu og fagott eftir Pál Ragnar Pálsson sem er tilnefnt sem tónverk ársins ásamt Lendh eftir Veronique Vöku sem einnig var frumflutt á tónleikunum.

Einnig er gaman að sjá fleiri tilnefningar sem tengjast hljómsveitinni. Anna Þorvaldsdóttir, staðartónskáld Sinfóníunnar, er tilnefnd fyrir kammerverkið Enigma sem var frumflutt af Spektral Quartet í Kennedy Center í Bandaríkjunum. Í flokki flytjenda ársins eru margir listamenn sem hafa komið fram með hljómsveitinni á árinu. Það eru Sæunn Þorsteinsdóttir sellóleikari og Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari sem bæði léku einleik með hljómsveitinni á tónleikum og í upptökum á árinu, Bjarni Frímann Bjarnason sem gegnir stöðu aðstoðarhljómsveitarstjóra Sinfóníunnar, Laufey Jensdóttir, fiðluleikari í hljómsveitinni og Sigurgeir Agnarson, leiðandi sellóleikari hennar.