EN

4. apríl 2017

Streymt beint frá tónleikum í Gautaborg 19. apríl

Sinfóníuhljómsveit Íslands heldur í tónleikaferð til Gautaborgar og leikur þar í hinu víðfræga tónleikahúsi borgarinnar 19. apríl. Tónleikarnir eru hluti að áskriftarröð Gautaborgarsinfóníunnar. Með í för verða aðalstjórnandi hljómsveitarinnar, Yan Pascal Tortelier og píanóleikarinn Víkingur Heiðar Ólafsson.

Hljómsveitin flytur verkið Aeriality eftir Önnu Þorvaldsdóttur sem hefur hlotið verðskuldaða athygli undanfarin ár, meðal annars hlotið Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs. Víkingur Heiðar Ólafsson leikur einleik í Burleske eftir Richard Strauss. Víkingur þreytti frumraun sína með Sinfóníuhljómsveit Íslands árið 2001 og hefur síðan komið fram með þekktum tónlistarmönnum og hljómsveitum víða um heim. Hljómsveitin flytur að lokum sinfóníu nr. 2 eftir Sibelius sem er meðal hans dáðustu verka. 

Næsta vetur mun Gautaborgarsinfónían endurgjalda greiðann og koma til Íslands og leika fyrir gesti í Eldborg undir stjórn finnska hljómsveitarstjórans Santtu-Matias Rouvali. Tónleikarnir verða hluti af dagskrá Sinfóníuhljómsveitar Íslands og verða kynntir með efnisskrá starfsársins 2017-18.

Tónleikar Sinfóníuhljómsveit Íslands í Gautaborg verða teknir upp í mynd og streymt beint á vef Sinfóníuhjómsveitar Íslands og einnig á GSO Play, á vef Gautaborgarsinfóníunnar, gso.se. Útsendingin hefst kl. 17.30.