EN

29. maí 2017

Tónskáldið er dautt! Skólatónleikar

Sinfóníuhljómsveit Íslands heldur ferna skólatónleika og á von á allt að fjögurþúsund grunnskólanemum í heimsókn á miðvikudag og fimmtudag í Eldborg. 

Tónleikarnir bera hið sérkennilega nafn Tónskálið er dautt!  Verkefnið er til þess gert að kynna nemendum heim hljómsveitartónlistar á spennandi og áhugaverðan átt. Sagan er eftir Lemony Snicket og fjallar um morð sem framið er í sinfóníuhljómsveitinni. Í þessari flóknu morðgátu virðast allir hafa ástæðu, höggþétta fjarvistarsönnun. Hvar nákvæmlega voru lágfiðlurnar umrætt kvöld? Varð einhver var við hörpuna? Eru skýringar trompetsins ekki ögn of kæruleysislegar?

Kynnir og sögumaður á tónleikunum er Bragi Valdimar Skúlason sem jafnframt sá um að þýða verkið yfir á íslensku. Hljómsveitarstjóri er Bernharður Wilkinson.

Metnaðarfullt og fjölþætt fræðslustarf er mikilvægur þáttur í starfsemi Sinfóníuhljómsveitar Íslands og hefur verið allt frá stofnun hennar. Hljómsveitin á móti um 16.000 nemum á hverju starfári ásamt því að vinna að fjölbreyttum verkefnum sem tengjast tónlist með ýmsum nemendahópum.