EN

24. september 2019

Ungsveitin lék Níundu fyrir fullu húsi í Eldborg

Það var mikið um dýrðir á tíu ára afmælistónleikum Ungsveitar Sinfóníuhljómsveitar Íslands síðastliðinn sunnudag þegar Ungsveitin flutti í Eldborg fyrir fullu húsi Níundu sinfóníu Beethovens ásamt einsöngvurum og kórum fyrir fullu húsi. Ungmennin hafa sótt hljómsveitarnámskeið undanfarnar vikur þar sem þau hafa notið þjálfunar og leiðsagnar framúrskarandi hljóðfæraleikara og hljómsveitarstjóra. Verndari Ungsveitarinnar Eliza Reid, forsetafrú, var viðstödd tónleikana en hún tók við hlutverki verndara sveitarinnar á þessu tíu ára afmælisári Ungsveitarinnar.

Ungsveit_sinfo33390

Eliza Reid Verndari Ungsveitarinnar ásamt Ragnheiði Ingunni Jóhannsdóttur
konsertmeistara sveitarinnar að loknum tónleikum.

Ungsveitin hefur vakið verðskuldaða athygli en sveitin hlaut viðurkenninguna Bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum 2016. Tæplega hundrað ungmenni úr tónlistarskólum landsins hafa tekið þátt ár hvert á hljómsveitarnámskeiði Sinfóníuhljómsveitar Íslands og náð undraverðum árangri undir leiðsögn framúrskarandi hljóðfæraleikara og hljómsveitarstjóra.

Einsöngvarar á tónleikunum voru Bryndís Guðjónsdóttir, Agnes Thorsteins, Alexander Jarl Þorsteinsson og Jóhann Kristinsson. Ásamt þeim söng 200 manna kór skipaður meðlimum úr Flensborgarkórnum, Graduale Nobili, Kór Flensborgarskóla, Kór Menntaskólans við Hamrahlíð, Kór tónlistardeildar LHÍ og Söngsveitinni Fílharmóníu. Kórstjórar voru Hrafnhildur Blomsterberg, Hreiðar Ingi Þorsteinsson, Magnús Ragnarsson, Sigurður Halldórsson og Þorvaldur Örn Davíðsson. Raddþjálfun og framburður var í höndum Bergþórs Pálssonar og píanóleikari á æfingum var Anna Guðný Guðmundsdóttir. Umsjón með hljómsveitarnámskeiðinu hafði Hjördís Ástráðsdóttir, fræðslustjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Aðstoðarhljómsveitarstjórar á fyrstu æfingum Ungsveitarinnar voru Bernharður Wilkinson og Bjarni Frímann Bjarnason. Hljómsveitarstjóri á tónleikunum var Daniel Raiskin en hann hefur tvívegis áður stjórnað Ungsveitinni og auk þess sem hann hefur stjórnað Sinfóníuhljómsveit Íslands með afbragðs árangri.