EN

20. desember 2016

Viðburðaríkt ár hjá Sinfóníunni

Nýr aðalhljómsveitarstjóri tekinn við

Árið 2016 hefur verið viðburðaríkt hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands. Nýr aðalhljómsveitarstjóri tók við stjórnartaumunum við upphaf starfsársins í september og stjórnaði eftirminnilegum upphafstónleikum. Yan Pascal Tortelier er franskur hljómsveitarstjóri og fiðluleikari og hefur á löngum starfsferli komið víða við. Hann er mikill happafengur fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands og tónleikagesti en Tortelier hefur þegar stjórnað fernum tónleikum á starfsárinu og hlotið mikið lof innlendra og erlendra gagnrýnenda fyrir frammistöðu sína með hljómsveitinni.

Viðtal við Tortelier í Kastljósi

Að venju hófst nýtt ár á Vínartónleikum en þeir eru jafnan best sóttu tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Síðan ráku hverjir tónleikarnir aðra; Leníngrad-sinfónían hljómaði í febrúar, ný tónleikaröð, Föstudagsröðin hóf göngu sína undir stjórn Daníels Bjarnasonar staðarlistamanns, hljómsveitinn flutti kvikmyndatónlist hins margverðlaunaða Jóhanns Jóhannssonar, Ashkenazy stjórnaði Sveitasinfóníu Beethovens á Listahátíð og Emilíana Torrini söng lög sín á tvennum tónleikum í maí. Í september lék Sinfóníuhljómsveit Íslands uppáhalds klassísku verk þjóðarinnar á tónleikum í beinni sjónvarpsútsendingu á RÚV. Fantasía Disneys lifnaði á hvíta tjaldinu við leik hljómsveitarinnar fyrir fullu húsi í þrígang í október og á Iceland Airwaves-tónlistarhátíðinni fengu tónleikagestir að kynnast höfundaverki meðlima Bedroom Community. Í nóvember lék Sinfóníuhljómsveitin tónlist Tsjajkovskíjs á fjórum sýningum á Hnotubrjótnum. Árinu lauk með fernum jólatónleikum í Eldborg þar sem hátt í 300 listamenn á öllum aldri komu fram.

Sinfóníuhljómsveit Íslands þakkar tónleikagestum, hátt í 20 þúsund skólabörnum, gestum á Barnastundum og hlustendum Rásar 1 fyrir samfylgdina og óskar öllum landsmönnum gleðilegra jóla.