EN

3. mars 2020

Leitum að ungum tónskáldum í tónskáldastofu Yrkju

Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur undanfarin ár tekið þátt í Yrkju sem er samstarfsverkefni Íslenskrar tónverkamiðstöðvar og ýmissa tónlistarstofnana og tónlistarhópa. Verkefnið miðar að því að búa ný tónskáld undir starf í faglegu umhverfi hjá hljómsveitum, hátíðum og öðrum listastofnunum. Fyrsta verkefninu var hleypt af stokkunum arið 2015 og síðan þá hafa þrettán ný tónskáld fengið tækifæri til að vinna með hljómsveitinni m.a. undir handleiðslu Önnu Þorvaldsdóttur og Daníels Bjarnasonar staðartónskálda Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Uppskerutónleikar Yrkju V með Sinfóníuhljómsveit Íslands voru haldnir 31. janúar síðastliðinn og frumflutti hljómsveitin þá verkin Illusion of Explanatory Depth eftir Sigurð Árna Jónsson og Lo and Behold eftir Eygló Höskuldsdóttir Viborg. Hljómsveitarstjóri var Bjarni Frímann Bjarnason.

Þann 1. febrúar hleypti Tónverkamiðstöð af stokkunum nýju Yrkju-verkefni með Sinfóníuhljómsveit Íslands sem nefnist UNG-YRKJA. Ung-Yrkja er frábrugðin hefðbundinni Yrkju að því leyti að verkefnið er miðað að tónsmíðanemum á háskólastigi. Valnefnd skipuð fagfólki mun fara yfir allar umsóknir og velja tvö til fjögur tónskáld sem fá í framhaldinu tækifæri til að vinna með Sinfóníuhljómsveit Íslands og semja 5-10 mínútna tónverk undir handleiðslu Önnu Þorvaldsdóttur, staðartónskálds Sinfóníuhljómsveitar Íslands. 

Umsóknarfrestur er til miðnættis 15. mars næstkomandi. 

Verkefnislýsingu og upplýsingar um umsóknarferlið má nálgast hér á vef Tónverkamiðstöðvar.

Upplýsingar um Yrkju-verkefnið veitir Valgerður G. Halldórsdóttur, framkvæmdastjóri Tónverkamiðstöðvar, í netfangið vala@mic.is.