EN

11. maí 2021

Alúfónn bætist í hljóðfærakistuna

Hljóðfæragjöf frá Samál

Nýjasti gripurinn í hljóðfærakistu Sinfóníuhljómsveitar Íslands er alúfónn. Slagverksdeild hljómsveitarinnar prufaði hljóðfærið í fyrsta sinn í Eldborg nýlega. Það er gert úr fjölmörgum álkeilum og er hljómurinn í því einstaklega bjartur og fallegur. Hljóðfærið er gjöf frá Samál til hljómsveitarinnar.

Viðtal við Eggert Pálsson slaverksleikara um alúfóninn.

Alúfónn er hljómborðshljóðfæri, sambærilegt við marimbu og sílófón, en nýrra af nálinni og er búið til úr sérstökum álkeilum. Ál er mjög leiðandi málmur fyrir tóna, og er því mjög hentugur sem hljómmálmur. Það sem einkennir alúfón er hvað tóninn er opinn og hvað hann lifir lengi. Það er hægt að spila á hljóðfærið á mjög ólíka vegu og gefur það marga möguleika í leik og túlkun.

Þessi viðbót í hljóðfærakistu hljómsveitarinnar býður upp á marga nýja möguleika. Nú geta íslensk samtímatónskáld notað rödd þessa hljóðfæris í sínum skrifum. Um leið og tónskáld frétta af svona viðbót byrja þau að skrifa fyrir það í nýjum verkum sínum, og maður er því mjög spenntur að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér fyrir þetta hljóðfæri, 

segir Eggert Pálsson slagverksleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Áskell Másson hefur þegar samið verk fyrir hljómsveit og alúfón sem vonir standa til að hægt verði að flytja bráðlega. Hann samdi hann einnig sérstakt verk fyrir hljóðfærið sem nefnist Aludreams og var það flutt við þetta tilefni.