EN

25. janúar 2018

Anna Þorvaldsdóttir útnefnd staðartónskáld

Anna Þorvaldsdóttir hefur verið útnefnd staðartónskáld Sinfóníuhljómsveitar Íslands og tekur hún við af Daníel Bjarnasyni sem hefur gegnt stöðunni undanfarin þrjú ár.

Hlutverk Önnu verður margþætt: Hún mun semja ný tónverk fyrir hljómsveitina, auk þess sem hljómsveitin mun flytja önnur nýleg verk Önnu, meðal annars hljómsveitarverkið Metacosmos sem Fílharmóníuhljómsveit New York-borgar frumflytur undir stjórn Esa-Pekka Salonen í apríl næstkomandi. Hljómsveitin mun einnig hljóðrita verkið fyrir bandaríska forlagið Sono Luminus, en nýr hljómdiskur SÍ þar sem m.a. var að finna verk eftir Önnu hefur hlotið mikið lof gagnrýnenda. Anna mun einnig eiga sæti í verkefnavalsnefnd Sinfóníuhljómsveitarinnar og vera í forsvari fyrir tónskáldastofuna Yrkju, sem er samstarfsverkefni Sinfóníunnar og Íslenskrar tónverkamiðstöðvar og miðar að því að veita ungum tónskáldum reynslu í að semja fyrir sinfóníuhljómsveit.

Anna Þorvaldsdóttir er eitt virtasta tónskáld samtímans og hefur hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar fyrir tónlist sína. Verk hennar eru flutt reglulega víðsvegar um heim og hafa hljómað á tónleikastöðum og hátíðum eins og Mostly Mozart-hátíðinni í New York, í Walt Disney Hall í Los Angeles og í Kennedy Center í Washington D.C. Anna var handhafi Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2012, hlaut verðlaunin Kravis Emerging Composer Prize frá Fílharmóníuhljómsveitinni í New York 2015, og fyrr á þessu ári hlaut hún tvenn verðlaun frá Lincoln Center: Emerging Artist Award og The Martin E. Segal Award. 

Meðal þeirra sem hafa leikið verk Önnu má nefna Sinfóníuhljómsveit Íslands, International Contemporary Ensemble (ICE), New York Philharmonic, Los Angeles Philharmonic, Ensemble Intercontemporain, NDR Elbphilharmonie, Bang on a Can All-Stars, The Crossing, Oslo Philharmonic, og Royal Stockholm Philharmonic. Fyrsta portrait plata Önnu – Rhízōma – kom út hjá bandaríska útgáfufyrirtækinu Innova Recordings haustið 2011 og hlaut afar góðar viðtökur og dóma, en platan var meðal annars valin á lista yfir bestu plötur ársins 2011 hjá tímaritunum TimeOut New York og TimeOut Chicago. Önnur portrait plata Önnu – Aerial – kom út hjá Deutsche Grammophon í nóvember 2014 og var valin á fjölda lista yfir bestu plötur ársins, til að mynda hjá The New Yorker Magazine, Boston Globe, iTunes Classical, og hjá klassísku útvarpsstöðinni WQXR/Q2. Þriðja portrait plata Önnu – In the Light of Air – kom út árið 2015 í útgáfu bandarísku útgáfunnar Sono Luminus í flutningi International Contemporary Ensemble. Platan hlaut afar góðar viðtökur og dóma og var meðal annars valin á lista yfir bestu plötur ársins hjá Alex Ross hjá The New Yorker, á bandarísku útvarpsstöðinni NPR, Boston Globe, og hjá The New York Times.

Arna Kristín Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, segir af þessu tilefni:

Það hefur verið magnað að fylgjast með þeirri alþjóðlegu athygli sem íslensk samtímatónlist og tónlistarmenn hafa verið á fá síðustu misseriAnna Þorvaldsdóttir á þar stóran hlut að máli en ferill hennar er einstaklega glæsilegur. Margar af helstu sinfóníuhljómsveitum heims hafa pantað og frumflutt eftir hana verk, auk þess sem hún hefur hlotið fjölda alþjóðlegra viðurkenninga og verðlauna og er talin ein af 35 áhrifamestu og mikilvægustu klassísku kventónskáldum 20. og 21. aldar að mati tónlistargagnrýnanda Washington Post. Það er mikill fengur fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands að fá Önnu til liðs við sig og við bindum miklar vonir við samstarfið. Tilkoma Önnu brýtur blað í sögu hljómsveitarinnar en hún er fyrsta konan sem mun starfa með hljómsveitinni sem staðartónskáld. Það er aldeilis kominn tími til.

 

Anna Þorvaldsdóttir segir af þessu tilefni.

Það verður dásamlegt að vinna með Sinfóníuhljómsveit Íslands á þennan hátt - hljómsveitartónlist á afar sérstakan sess hjá mér og ég hlakka mikið til að takast saman á við þau verkefni sem bíða okkar. Sinfónían hefur um árabil, og á heimsvísu, verið afar framarlega í flutningi samtímatónlistar og það að hljómsveitin skuli hafa tök á að hafa staðarlistamann sem starfar við samtímatónlist styrkir þá hlið starfsins á ómetanlegan hátt. Ég er mjög þakklát fyrir að geta unnið að því með einstaklega góðu fólki að þáttur samtímatónlistar í starfi hljómsveitarinnar verði áfram sýnilegur og fjölbreytilegur.